Guðrún Ágústsdóttir starfar sem ráðgjafi í Foreldrahúsi samtakanna Vímulausrar æsku og fæst við snemmtæka íhlutun í tilfellum þar sem börn og unglingar eru byrjaðir að nota fíkniefni. Hún segir að málþingið sé haldið til að efla umræðu um málaflokkinn og benda á þau úrræði sem eru til staðar, hjá ríki, sveitarfélögum og frjálsum félagasamtökum.
Guðrún: „Við viljum styrkja foreldra almennt en ekki hræða þá, og benda þeim á mikilvægi þess að þeir fræðist um neyslu, hversu auðvelt það er fyrir unglinga að nálgast vímuefni, hvernig eigi að bregðast við og fleira.“
Hún nefnir að þó að unglingadrykkja hafi dregist mjög mikið saman á undanförnum áratugum þá hafi viðhorfið til fíkniefna breyst hratt.
Guðrún: „Áður fyrr vöruðu foreldrar börn sín við áfengisneyslu en nú þurfa þeir að taka önnur vímuefni inn í þá umræðu. Foreldrarnir eru mikilvægasti þátturinn í lífi barns og þeir þurfa að kynna sér þetta og vita hvert þeir geta leitað.“
Eru fíkniefni orðin almennt viðurkenndari meðal unglinga?
Guðrún: „Já, ég heyri það bæði frá foreldrunum og unglingunum sjálfum. Það hefur orðið viðhorfsbreyting gagnvart vímuefnum, sérstaklega svokallaðri partí-vímuefnaneyslu þar sem vímuefni eru notuð kannski aðra hvora helgi. Það þykir ekkert tiltökumál að fara á djammið, drekka áfengi og fá sér kókaín eða eitthvað svipað, sérstaklega hjá eldri ungmennum 18 til 25 ára. Hjá yngri krökkum er grasið orðið almennt viðurkennt.“
Sigrún Vatnsdal, fundarstjóri á málþinginu, segir:
„Sumir byrja ekkert að prófa fíkniefni fyrr en í framhaldsskóla, taka rítalín í próflestrinum og trappa sig svo niður á eftir.“
Hvaða merki geta foreldrar séð sem sýna að unglingur sé byrjaður að nota fíkniefni?
Sigrún: „Lykt til dæmis, eins og af grasinu, en það er ekki lykt af öllum fíkniefnum.“
Guðrún: „Foreldrar geta tekið eftir breyttu hegðunarmynstri hjá unglingum. Það er erfiðara þegar þeir eru ekki að nota efnin reglulega en um leið og það gerist koma fram einkenni. Unglingarnir einangra sig frá fjölskyldunni, eru sjaldan heima, eiga erfiðara með að vakna í skólann, skrópa, sinna náminu og áhugamálum illa og umgangast nýja vini. Síðan má nefna að skapið getur breyst mikið.“
Er þetta ekki lýsingin á venjulegum unglingi?
Guðrún: „Ekki þegar öll þessi einkenni koma saman og unglingurinn fer að breytast mikið í skapi. Auðvitað er skap unglinga upp og niður en þetta er öðruvísi og meira en það.“
Hvernig eiga foreldrar að bregðast við?
Guðrún: „Ekki með því að stökkva á unglinginn og ráðast á hann. Það er nauðsynlegt að halda góðu sambandi við hann og hlusta en ekki ýta í burtu.“
Ástæðurnar fyrir því að unglingar leita í fíkniefni eru margar að mati Guðrúnar. Fíkniefni þykja spennandi af því að þau eru ólögleg, unglingar sjá þeim hampað í tónlistarmyndböndum og bíómyndum og þrýstingur frá vinum skiptir einnig máli. Margir kljást við kvíða eða aðra andlega kvilla og unglingarnir kynna fíkniefni fyrir hver öðrum sem lausn.
Guðrún: „Við höfum séð mikla aukningu í notkun lyfseðilsskyldra lyfja á undanförnum tveimur eða þremur árum. Þau taka til dæmis oxycontín-töflur eða parkódín forte, eða reykja þetta og kenna hvert öðru að „lækna“ sig. Aðgengið að efnunum er orðið mjög mikið með tilkomu netsins. Áður fyrr þurfti fólk að vera tengt og hafa svolítið fyrir því að útvega sér efni, en núna er ekki nauðsynlegt að þekkja neinn. Unglingar sem kaupa sér fíkniefni á netinu vita heldur ekkert hvað þeir eru að fá og hvað þeir eiga að gera. Þeir telja sér hins vegar trú um að þeir hafi stjórn á neyslunni og aðstæðunum.“
Guðrún og Sigrún segja að ekki megi vanmeta áhrif neyslunnar á foreldrana sjálfa og oft geta þeir verið lengi að ná sér.
Sigrún: „Það er mikilvægt að foreldrarnir leiti sér aðstoðar. Þeir finna fyrir kvíða, áhyggjum, sektarkennd, sorg og reiði, bæði út í sjálfa sig og unglinginn. Þeir upplifa sig hjálparlausa og finnst þeir hafa brugðist sem foreldri.“
Hvaða úrræði eru í boði fyrir þá?
Guðrún: „Til dæmis að fara í foreldrahóp í Foreldrahúsi til að styrkja hvort annað, tala við aðra foreldra í sömu stöðu og tala um þessar tilfinningar, sem þeir sem ekki hafa lent í þessu, skilja ekki. Foreldrar unglinga í neyslu mæta oft miklum fordómum og skilningsleysi úti í samfélaginu, foreldrar sem eru kannski búnir að reyna öll úrræði. Foreldrarnir finna fyrir stuðningi frá hvor öðrum og eiga þá auðveldara með að takast á við vandamál unglinganna.“
Hefur neysla unglings langtímaáhrif á líðan foreldra?
Guðrún: „Já, ef ég ætti að giska þá myndi ég segja að áhrifin vari í tvö eða þrjú ár eftir að unglingurinn nær sér upp úr neyslunni. Þeir finna fyrir stöðugri hræðslu um að hann falli, oflesa öll merki og ofvernda yngri systkini. Einnig eiga þeir oft erfitt með svefn og vakna upp við minnstu hljóð. Neysla unglings hefur ekki aðeins áhrif á foreldrana heldur systkini líka, sérstaklega ef þau eru mjög ung.“
Málþingið fer fram klukkan 10 til 12, laugardaginn 1. september. Guðrún mun flytja erindi fyrir hönd Foreldrahúss Vímulausrar æsku. Einnig tala fulltrúar frá SÁÁ, IOGT á Íslandi, MST teymi Barnaverndarstofu og Minningarsjóði Einars Darra. Opið verður fyrir fyrirspurnir og umræður eftir hvert erindi. Auk þess mun Saga Nazari, sem sjálf átti við fíknivanda að stríða, flytja tónlist.