Árið 2015 var barnaníðingsmál innan Þjóðkirkjunnar gert upp á sáttafundi á Biskupsstofu þar sem þolandi og gerandi mættust. Gerandinn, séra Þórir Stephensen fyrrverandi Dómkirkjuprestur, gekkst við brotum sínum á fundinum en hefur síðan fengið að koma fram í kirkjulegum athöfnum, predikað og tekið í hendur á mektarmönnum, íslenskum og erlendum. Þrír biskupar hafa vitað um málið og kirkjan er í mikilli vörn vegna þeirra mistaka sem gerð hafa verið. DV fjallar nú um syndir kirkjunnar. Þetta mál og önnur sýna vel hvernig kirkjan hefur síendurtekið brugðist skyldu sinni gagnvart skjólstæðingum, sópað undir teppið, falið og neitað að horfast í augu vandamál sem upp koma. Þess í stað er gerendum hampað eins og mál Þóris Stephensen, sýnir glöggt. Alvarleg kynferðisbrot Þóris eru ekki aðalatriðið í umfjöllun DV þótt ekki verði hjá því komist að fjalla um þau brot sem hann viðurkenndi á umdeildum sáttafundi.
Þetta er brot úr ítarlegri umfjöllun um syndir kirkjunnar í helgarblaði DV.
Þórir var nemi við guðfræðideild Háskóla Íslands þegar hann kom eins og úlfur í sauðargæru inn á heimili forstjóra eins í vesturbæ Reykjavíkur. Hann var reyndar fæddur og uppalinn í Reykjavík en fékk herbergi til að gista í eftir að stúdentsprófi lauk árið 1951 og stunda þar nám sitt. Unnur Guðjónsdóttir, ættingi þolanda, segir:
„Íbúð foreldra Þóris var svo lítil að umræddur forstjóri bauð honum herbergi í sinni íbúð í sömu götu, sem hann þáði. Hann var þá að byrja í guðfræðideildinni í Háskólanum.“
Annað herbergi á háalofti heimilisins var svefnherbergi tveggja dætra forstjórans, sem þá voru tíu og níu ára gamlar. Herbergið var ílangt og rúm þeirrar eldri var nær hurðinni en hinnar yngri við vegginn fjær. Þolandi hefur ekki treyst sér til að tjá sig við DV, en fólk náið honum hefur gert það. Maður náinn konunni segir:
„Hún sagði mér hvað gerðist á þessum tíma. Faðir hennar leyfði Þóri að búa hjá sér uppi á háalofti þar sem þær sváfu systurnar. Hann flutti upp á loft og var í herbergi sem var á sama gangi og herbergi systranna. Síðan fór hann að fara inn til hennar og taka hana, misnota hana. Hún var tíu ára og hann hefur verið tvítugur eða þar um kring. Hann virðist hafa gert þetta þegar systir hennar, sem er ári yngri, var sofnuð. Hún lýsti því þannig.“
Málið var aldrei rannsakað og ekki er nákvæmlega vitað hversu oft Þórir braut á stúlkunni. Maður náinn konunni segir:
„Ég spurði hana hvað hún héldi að þetta hefðu verið mörg skipti og hún sagði sjö eða átta. Hún nefndi þessa tölu og ég tel að þetta hafi jafnvel verið oftar því að það er vel þekkt að hugurinn loki á sárar minningar. Í síðasta skiptið vaknaði systir hennar, reis upp og sá hvað var að gerast. Þá hysjaði hann upp um sig buxurnar og kom ekki aftur. Svona lýsti hún þessu. Þetta lá enn þungt á henni. Þetta er svo hrikalegur glæpur. Við vorum í sambandi frá árinu 2003 til 2006. Í að minnsta kosti hálfan vetur eða allan gekk hún vikulega til Stígamóta. Þetta hvíldi svo þungt á huga hennar enn þá eftir öll þessi ár.“
Eftir þetta síðasta skipti sem Þórir heimsótti rúm stúlkunnar bað hún litlu systur sína að að þegja yfir atvikinu sem hún og gerði. Eftir þetta hætti Þórir að venja komur sínar í barnaherbergið og stúlkan þorði aldrei að segja foreldrum sínum frá hvað gerst hafði.
Unnur segir sömu sögu:
„Þetta skeði í svefnherbergi stúlknanna. Þetta hætti ekki fyrr en að yngri systirin vaknaði og sá ósköpin. Eldri systirin fékk hana svo til að þegja yfir þessu. Það var ekkert talað um þetta en heimsóknir Þóris í herbergið hættu.“
Viðurkenndi brot sín á sáttafundi
Forstjórinn og kona hans komust aldrei að því sem gerðist og langt er síðan þau féllu bæði frá. Þolandinn sagði engum frá þessu fyrr en á efri árum en á meðan hafði hún séð Þóri Stephensen vígjast til prests og vinna sig upp metorðastiga kirkjunnar. Fyrst sem landsbyggðarprest og síðan þjónaði hann í sjálfri Dómkirkjunni við Austurvöll þar sem hann var vel þekktur maður í þjóðfélaginu og tók mikinn þátt í þjóðfélagsumræðunni.
Séra Þórir lét af störfum árið 2001 eftir farsælan feril sem prestur en síðan þá hefur hann predikað og tekið þátt í kirkjulegum athöfnum sem emerítus, sem er tignarstaða innan bæði kirkjunnar og háskóla.
Upp úr aldamótum ræddi konan þetta mál við ættingja og árið 2003 leitaði hún til Stígamóta vegna þess en þá hafði hún þurft að burðast með ömurlegar minningar um ofbeldið ein í yfir hálfa öld. Síðar leitaði hún til kirkjunnar og ræddi þá við sjúkrahússprestinn séra Gunnar Rúnar Matthíasson.
Árið 2010 sendi Unnur Guðjónsdóttir bréf til kirkjunnar og lét vita af athæfi séra Þóris. Séra Skírnir Garðarsson í Lágafellssókn gaf einnig ábendingar til kirkjunnar um málið en þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, aðhafðist ekkert. Í bréfi Unnar segir:
„Ég var að hlusta á Gunnar Rúnar Mattíasson í hádegisútvarpinu áðan, þar sem hann uppmanaði fólk að láta vita ef það vissi um kynferðisbrot presta. Hér kemur frásögn um mann, sem ekki var orðinn prestur, þegar brot hans var framið, heldur stundaði prestnám í Háskóla Íslands.
Maðurinn heitir Þórir Stephensen. Hann vantaði húsnæði hér í Reykjavík, og X bauð honum herbergi í sinni íbúð, þar sem hann bjó með fjölskyldu sinni. Þórir þáði boðið. Þennan tíma, sem Þórir naut gestrisni X, nauðgaði hann dóttur hans, Y, margsinnis, en hún var þá barn að aldri.
Ég tek það fram, að Y veit ekki að ég sendi ykkur þetta bréf. Ég er ekki heldur að fara fram á að þið gerið eitthvað í málinu, en mér finnst samt að þið getið fengið þessa vitneskju, hún getur orðið hluti af mynd þeirri, sem nú er að koma í ljós hvað viðkemur starfsmönnum kirkjunnar.
Virðingarfyllst,
Unnur Guðjónsdóttir“
Málið var tekið fyrir hjá fagráði kirkjunnar en Gunnar Rúnar Matthíasson var þá formaður þess. Agnes Sigurðardóttir var látin vita af málinu og var sáttafundi komið á milli séra Þóris og þolanda árið 2015. Fundinn sátu einnig frú Agnes, séra Gunnar Rúnar og tveir synir konunnar. Þar viðurkenndi séra Þórir brot sín og baðst afsökunar á því að hafa misnotað konuna.
Annar sonur konunnar sagði við DV:
„Í raun og veru er þetta pakki sem við tókum með mömmu og höfum verið að vinna í nokkur ár með henni. Við tókum að lokum þá ákvörðun að þetta væri ekki barátta sem gerði henni gott. Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir hana. Við ákváðum að þetta yrði eitthvað fyrir almættið að útkljá.“
Um séra Þóri sagði hann:
„Ég ætla ekki að dæma hann. Ég vona hreinlega að hann fái í sínu lífi eða dauðaferli að mæta einhverju.“