Á sunnudag birti DV frétt um að meðlimur Hjálparsveitar skáta í Kópavogi hefði fyrir mistök póstað á Facebooksíðu félagsins auglýsingu í svæsið og lostafullt bdsm-partý. Tilkynningin var tekin niður en þó ekki fyrr en tekin hafði verið mynd af henni og henni deilt á samfélagsmiðlum.
Magnús Örn Hákonarson björgunarsveitarmaður, sérfræðingur í rústabjörgun hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og formaður BDSM félagsins steig fram og gekkst við þessum mistökum sínum.
„Hver hefur ekki lent í því að senda skilaboð eða snap á einhvern rangan aðila? Þetta hitti bara á ranga síðu,“ segir Magnús Örn sagði hann í viðtali við blaðamann Vísis, sem kannaðist vissulega við að hafa gert það (sem og blaðamaður DV, sem einnig er félagi í Landsbjörg).
Einhverjir félagar óskuðu eftir að hann yrði rekinn úr sveitinni. Svo margir að Hjálparsveit skáta sendi tilkynningu til félagsmanna sinna til að þagga niður í þeim röddum:
„Innan þessa sjálfboðaliðahóps starfa margir aðilar með misjafnan bakgrunn og áhugamál. Fólk stundar alls kyns íþróttir og áhugamál og mun stjórn HSSK ekki gera greinarmun á þeim áhugamálum, svo framarlega sem þau séu lögleg. Fyrir mistök urðu hans áhugamál enn sýnilegri og í stutta stund í nafni sveitarinnar. Eftir samtal er stjórn þess fullviss að það var gert í ógáti og mun stjórn ekki aðhafast frekar vegna þess.“
Í viðtalinu við Vísi nefndi Magnús Örn að það væru líkur á að hann yrði í næsta áramótaskaupi og jafnframt að það væri spurning hver neyðarkallinn yrði á næsta ári.
„Það er spurningin hver neyðarkallinn verður á næsta ári. Hvort hann verði í einhverjum búningi,“ segir Magnús Örn. Sjá mætti fyrir sér hálfnaktan neyðarkall með ól um hálsinn og haldandi á svipu.
Halldór Högurður, sem hefur verið handritshöfundur Áramótaskaupsins oftar enn einu sinni birti á Facebook fyrr í kvöld mynd af neyðarkalli í líkingu við þann sem Magnús Örn nefnir.
Sala á neyðarkallinum hefst þann 1. nóvember næstkomandi og hefur hann ávallt verið karl eða kona í búningi sem tengist störfum Landsbjargar, en ekki áhugamála félagsmanna, sem eru líklega ærið fjölbreytt þar sem félagsmenn eru þverskurður samfélagsins.