Þegar Eyþór var spurður hvort hann hafi ekki verið að leita að kaupanda að sínum hlut í Morgunblaðinu svaraði hann: „Ég hef nú ekki verið beint að leita að honum, en ég sagði að ef það væri kaupandi þá væri hluturinn til sölu, en það hefur ekkert komið út úr því.“ Blaðamaður spurði hann þá hvort hluturinn væri enn þá til sölu og hann svaraði: „Ég hef ekkert verið að auglýsa hann til sölu en hann er falur fyrir gott verð. Maður er náttúrlega aðeins í eftirlitshlutverki í stjórnarandstöðu og sem slíkur er maður ekki í valdastöðu, en ég er farinn út úr mörgum fyrirtækjum. Ég var nú kannski ekki að hafa frumkvæði að því að leita að kaupanda, heldur var ég einfaldlega spurður hvort hluturinn væri til sölu. Hins vegar hefur ekki verið rosaleg eftirspurn eftir hlutabréfum í fjölmiðlum.“
Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni ræddi Kristján Kristjánsson,umsjónarmaður þáttarins, við Eyþór Arnalds meðan hann var í kosningabaráttu um oddvitasætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Bað hann Eyþór að svara því afdráttarlaust hvort hann myndi losa sig undan eignarhaldi í fjölmiðli ef hann yrði kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík. „Ég er þeirrar skoðunar að ég eigi að fara úr því, ég er prinsippmaður,“ svaraði Eyþór.
„Svo er þetta nú svo lítið land og einhver verður að eiga í þessum blessuðum fjölmiðlum“
Blaðamaður spurði Eyþór einnig hvort það væri ekki óheppilegt að stjórnmálamenn ættu í fjölmiðlum þar sem hlutverk fjölmiðla gæti oft verið að gagnrýna sjálfa stjórnmálamennina. Svaraði Eyþór því til að þess væru nú dæmi að stjórnmálamenn hefðu átt í fjölmiðlum. „Fjölmiðlar eiga að gagnrýna stjórnmálamenn, það er alveg rétt, en þeir eiga líka að gagnrýna viðskiptamenn og þeir eiga almennt að vera gagnrýnir. Þeir eru ekki bara til að gagnrýna stjórnmálamenn.“
Eyþór minnist þess einnig í samtali við blaðamann að hann hafi nú átt í fleiri fjölmiðlum og hafi til dæmis verið hluthafi í DV þegar hann var aðeins 11 ára gamall. „Ég var blaðasali á þessum tíma hjá DV og notaði þá peninga til að kaupa mín fyrstu hlutabréf og þau voru í DV.“ Aðspurður hvort það hafi verið góð fjárfesting svaraði hann einfaldlega: „nei.“
Hann sagði svo að lokum: „Svo er þetta nú svo lítið land og einhver verður að eiga í þessum blessuðum fjölmiðlum. Við megum ekki gleyma því að eigendur eru almennt ekki að ritstýra. Það er reyndar öðruvísi með suma netmiðlana þar sem hluthafar eru líka ritstjórar, en það er ekki þannig með Árvakur. En hins vegar er ekki langt síðan Össur Skarphéðinsson var bæði þingmaður og ritstjóri DV.“