Tollstjóri hefur óskað eftir nauðungarsölu á íbúð í Vestmannaeyjum í eigu Hermanns Hreiðarssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu og fjárfestis, vegna 42,8 milljón króna kröfu að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.
Viðskiptablaðið greinir frá og segir Hermann að málið tengist fjárfestingum í kvikmyndagerð í Bretlandi, sem hann og fleiri knattspyrnumenn í Bretlandi hafi tekið þátt í. Krafan hafi síðan verið send frá Bretlandi.
„Tollstjóri er alveg meðvitaður um þetta mál,“ segir Hermann. Eftir lagabreytingu í Bretlandi hafi fjölmargir aðilar fengið bakreikning frá breskum skattyfirvöldum. „Þeir breyttu lögunum þannig að fullt af fólki fengu alls konar reikninga,“ segir Hermann.
Eitt þeirra verkefna sem Hermann fjárfesti í er enn á borði dómstóla á Bretlandi. „Það er endurskoðandi með þetta úti. Þegar komin er niðurstaða í það þá annað hvort skuldar maður eitthvað eða ekki. Ef maður skuldar eitthvað þá bara borgar maður það og ef maður á inni þá fær maður það,“ segir Hermann.
Hins vegar hefur Hermann ekki fengið neitt endurgreitt vegna fjárfestingar sinnar og því segir hann að geti vart staðist að hann fái reikning frá skattinum vegna þess. „Ég var búinn að borga og fékk aldrei neitt endurgreitt,“ bendir Hermann á.