DV auglýsti eftir Sebastian og nú er hann fundinn. Hann heitir Arnar Sebastian Gunnarsson, 31 árs og úr Árbænum en er nú búsettur í Keflavík.
„Ég er mikill aðdáandi Jessie J, sérstaklega vegna raddbeitingu og söngtækni hennar“ segir Sebastian í samtali við DV.
Hvernig leið þér þegar þú fékkst míkrófóninn í hendurnar?
„Bara eins og í sturtunni heima hjá mér.“
Varstu eitthvað hikandi?
„Leyfðu mér að hugsa aðeins… Neibb.“
Hæfileikarnir eru ekki aðeins meðfæddir heldur hefur Sebastian iðkað söng og lært í Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna. Hann hefur líka sungið á nokkrum tónleikum til dæmis með hljómsveitinni Hátveiro Genesis sem flytur lög eftir hina goðsagnakenndu bresku sveit Genesis.
„Ég elska að syngja og myndi vinna við það ef ég gæti það“ segir Sebastian og hver veit nema honum berist einhver tilboð eftir frammistöðuna á miðvikudagskvöld.
Hvernig fannst þér tónleikarnir?
„Þetta voru frábærir tónleikar, hún Jessie er snillingur. Ég hef ekki lent í neinu þessu líku, þetta var mjög gaman.“
Hér er myndband af tónleikunum. Söngur Sebastians byrjar á mínútu 4:25.