fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Kristján var afburðanemandi sem fékk ekki hjálp – Jarðsettur í vikunni – „Ég hótaði að hoppa fram af svölunum og fékk svarið – „Já, það er þá bara þitt mál.“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 22. júní 2018 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 9. júní síðastliðinn fannst Kristján Steinþórsson, 26 ára, látinn í herberginu sínu sem hann hafði á leigu í Hafnarfirði. Kristján hafði glímt við þunglyndi og önnur andleg vandamál um langt skeið. Á sínum yngri árum var hann afburðanemandi, sá besti í skólanum, og hafði allt til brunns að bera til að eiga gæfuríkt og gott líf en kerfið brást honum á öllum stigum. Þegar hann grátbað um aðstoð á sinni myrkustu stund mættu honum sinnuleysi og hroðvirknisleg vinnubrögð.

Mistök og skeytingarleysi í móttöku geðdeildar

„Kristján heiti ég og er fíkill. Ég mætti niður á geðdeild Landspítalans fimmtudaginn 3. maí í slæmu ástandi vegna vímu. Þá var mér tjáð að það væru engin laus pláss á deild 33a, þar sem ég sótti um að komast inn, en hringt yrði á mánudaginn 7. maí og mér boðin innlögn.“

Þetta eru orð Kristjáns Steinþórssonar, 26 ára, þegar hann var mjög langt niðri þann 15. maí síðastliðinn og sendi DV bréf. Kristján hafði glímt við þunglyndi, kvíða og félagsfælni um langt skeið og sautján ára fór hann að leita í fíkniefni til að deyfa sársaukann. Í kringum jólin árið 2017 var hann farinn að leita í harðari efni og sökk hratt niður í dýpi þunglyndis og fíkniefnaneyslu.

Kristján fékk ekkert símtal og endalaus vandamál komu upp við úrvinnslu máls hans. Hann fékk pláss á Hlaðgerðarkoti og var honum þá tjáð að hann hefði forgang á biðlista geðdeildarinnar.

„Þá fórum við aftur á bráðamóttöku geðsviðs á miðvikudaginn og hjúkrunarfræðingurinn þar hafði aldrei heyrt um þann samning. Ég talaði við yfirlækni og hann staðfesti að ég ætti að ganga fyrir. Í dag var hringt og ekkert laust pláss fyrir mig og ég var ekki einu sinni kominn á biðlista til að komast á deild 33a. Ég hótaði þá að hoppa fram af svölunum og fékk aðeins svarið: „Já, það er þá bara þitt mál.“

Kristján tekur við verðlaunum fyrir bestan árangur í 10. bekk Stóru Vogaskóla árið 2007

Fannst látinn eftir að hann komst ekki inn á Teig

Dagbjört Þráinsdóttir, móðir Kristjáns, og systir hennar Andrea sögðu blaðamönnum DV frá ævi Kristjáns og hvernig kerfið brást honum. Þær kenna engum einum um og eru ekki að leita að sökudólgi. En samkvæmt þeim er kerfið í rúst og eitthvað verður að gerast því annars verða fleiri aðstandendur í sömu sporum og þær.

Kristján komst loksins inn á geðdeild Landspítalans og var þar í eina viku. Eftir þá dvöl átti hann að komast í fíknimeðferð á Teig og var bjartsýnn á að komast þar inn. Taka átti einn hóp inn á Teig áður en sumarfríin hefðust og meðferðarheimilinu yrði lokað í heilan mánuð. En þegar honum var tjáð að hann hann kæmist ekki inn fyrr en í haust var það slíkur skellur að hann byrjaði aftur í harðri neyslu. Andrea segir:

„Við vorum alveg vissar um að hann vildi hætta í neyslu því að hann var nýbúinn að segja við móður sína að hann væri svo spenntur og hlakkaði svo til að sýna okkur það að hann gæti orðið edrú.“

Kristján bjó hjá móður sinni og systkinum í Grafarholtinu fram á vorið en þá stefndi fjölskyldan á að flytja búferlum austur á Stöðvarfjörð. Hann ákvað þá að flytja að heiman og fékk herbergi á leigu í Hafnarfirði. Fjölskyldan tæmdi íbúðina og Kristján flutti inn í herbergið þriðjudaginn 5. júní, sama dag og hann fékk þær fréttir að ekki væri pláss fyrir hann í meðferðinni á Teig. Dagbjört segir:

„Ég og litli bróðir, átján ára, komum að honum látnum í herberginu á laugardeginum.“

Dánarorsök Kristjáns er ekki enn kunn þar sem krufning liggur ekki fyrir en samkvæmt læknum eru taldar mestar líkur á að ofneysla einhverra efna hafi dregið hann til dauða.

Hægt er að lesa frekar um mál Kristjáns Steinþórssonar í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu