fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Skelfileg lífsreynsla Þórdísar: Ráðist á hana á Klambratúni þegar hún var á gangi með dóttur sína í barnavagni – „Árásarmaðurinn er augljóslega mjög hættulegur“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 31. maí 2018 20:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er afskaplega lítið fyrir hverskyns óttavæðingu, en eftir langa umhugsun finnst mér að mér beri borgaraleg skylda til að segja frá eftirfarandi,“ segir ung íslensk kona, Þórdís að nafni, sem varð fyrir hrollvekjandi lífsreynslu á dögunum.

Í færslu sem Þórdís skrifaði á Facebook fyrir skemmstu segir hún frá því að hún hafi verið á gangi skömmu eftir miðnætti mánudaginn 21. maí síðastliðinn með tæplega eins og hálfs árs dóttur sína í vagni á Klambratúni nærri Rauðarárstíg. Segir Þórdís að ungur maður, á að giska 25 ára, hefði nálgast mæðgurnar, ráðist gróflega á Þórdísi og gert tilraun til að nauðga henni.

Lögregla kannast við málið

Í samtali við DV staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild, að málið hafi komið inn á borð lögreglu. „Við könnumst við málið,“ segir hann og bætir við að lögð hafi verið fram kæra í málinu og það tekið til rannsóknar. „Því miður er ekki á miklu að byggja,“ segir Ævar og bætir við að eftirlitsmyndavélar hafi ekki nýst lögreglu við rannsóknina. Aðspurður segir hann að sem betur fer hafi ekki fleiri tilkynningar borist um árásir af þessu tagi í nágrenni við Klambratún.

Leigubíl ekið framhjá

Eins og Þórdís bendir á í færslunni kveðst hún vera lítið fyrir að ala á ótta að ástæðulausu, það sé frekar borgaraleg skylda hennar að upplýsa samborgara hennar um málið.

„Árásarmaðurinn er augljóslega mjög hættulegur, enda held ég að menn hljóti að vera komnir ansi langt yfir sturlunarmörkin til að ráðast á konu með barn í vagni, og að auki í sjónlínu frá bæði húsum og bílum við Rauðarárstíg,“ segir Þórdís í færslunni og bætir við að leigubíl hefði verið ekið framhjá en bílstjórinn, því miður, ekki séð það sem gerðist.

„Bar með sér að stunda þetta“

Þórdís segir að maðurinn hafi verið um 180 sentímetrar á hæð, fremur grannvaxinn og á að giska 25 ára eins og að framan greinir.

„Hann var fótgangandi, allur svartklæddur, í svörtum mittissíðum jakka og svartri peysu undir og með hettu á höfðinu en nauðrakaður undir henni, fölur, hvorki langleitur né búlduleitur, augun galopin, stjörf og starandi. Hann var ekki ölvaður en mögulega á einhverjum amfetamínkokteil. Hann kom aftan frá Kjarvalsstöðum og fór gangandi í átt að Lönguhlíð þegar hann hafði skilið við okkur.“

Þórdís kveðst gera sér grein fyrir því að lögreglan geti lítið aðhafst í málinu enda hafi hún ekki hugmynd um hver þetta er. Hvetur hún fólk þó til að deila færslunni – án þess að fullnafngreina hana þó – og þá sérstaklega til kvenna sem búa nálægt Klambratúni. Leiða megi líkur að því að umræddur maður búi í grenndinni. „Hann virðist hafa verið á vappinu í þessum ásetningi og bar með sér að stunda þetta, hann virtist þaulvanur.“

Náði ekki að klára ætlunarverkið

Eins og Þórdís bendir á er eina ástæða þess að hún opinberar þetta sú að fólk sé meðvitað um að stórhættulegur maður gangi laus. „Hann nálgaðist mig hægt og gaf sig á tal við mig áður en hann réðst á mig, sagði eina eða tvær setningar mjög alvarlegur og vélrænn og augnaráðið var alveg klikkað. Það fór ekkert á milli mála að hann væri ekki í lagi. Við slógumst talsvert og sennilega hef ég náð að koma einhverjum góðum spörkum fyrir neðan mitti því hann hreinlega náði ekki að klára ætlunarverk sitt,“ segir Þórdís og bætir við að unnusti hennar hafi reynst henni allur heimsins stuðningur. Hún segir að henni líði vel eftir atvikum, sé þakklát fyrir að vera líkamlega heil og umfram allt að dóttir hennar hafi ekki borið skaða af.

„En ég óska þess líka innilega að þetta vélmenni verði stoppað af, og ég myndi hiklaust kæra hann ef ég vissi hver þetta væri,“ segir Þórdís sem bætir að lokum við að hún myndi þekkja manninn í sjón.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá