„Það segir sig sjálft að það er gróft mannréttindabrot að höfða heilt sakamál á hendur einstaklingi og dæma hann í fangelsi algerlega án hans vitneskju. Það er ýmislegt sem bendir til þess að litið sé niður á fíkla og alkóhólista af hálfu ákæruvaldsins. Svo virðist sem þeir séu flokkaðir sem undirmálsfólk og fái í sumum tilvikum ekki réttláta málsmeðferð. Það er með öllu ólíðandi. Fólk er fólk og við njótum öll mannréttinda með sama hætti,“ segir Sara Pálsdóttir, lögmaður hjá Lausnum lögmannsstofu.
Var aldrei birt ákæra
Íslenskur skjólstæðingur hennar, Friðrik Ottó Friðriksson, var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands undir lok ársins 2016 fyrir meinta hylmingu á þýfi. Hið meinta afbrot á að hafa átt sér stað í Danmörku þar sem Friðrik var búsettur um tíma. Málið var síðan sent til Íslands og fór í ferli hjá íslenska réttarkerfinu. Ákæra var aldrei birt Friðriki sjálfum og fóru réttarhöldin fram án þess að hann væri viðstaddur. Það kom því Friðriki gjörsamlega í opna skjöldu þegar hann sá fréttir íslenskra fjölmiðla um að hann hefði verið dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Sara segir að málið sé dæmi um að víða sé pottur brotinn varðandi vinnubrögð ákæruvaldsins, sérstaklega varðandi birtingu á dómum og ákærum fyrir einstaklingum.
Neyddur til að taka á sig sök
Forsaga málsins er sú að Friðrik var búsettur í Danmörku og var um tíma í óreglu. Hans frásögn er á þá leið að hann hafi komist í kynni við vafasama einstaklinga þar ytra og hafi lent undir hæl þeirra. Í kjölfarið var hann neyddur til þess að taka á sig sök í tveimur málum sem sneru að vörslu þýfis, annars vegar á átta málverkum að andvirði tveimur milljónum króna og hins vegar á vörslu bifreiðar sem manninum mátti vera ljóst að var stolin. Hin meintu brot áttu sér stað á árunum 2012–2013 en í yfirheyrslum hjá dönskum lögregluyfirvöldum segir Friðrik að hann hafi verið þvingaður til að játa á sig sök, af glæpaforingja þarlendis. Síðar flúði Friðrik til Íslands og heyrði ekkert af málinu fyrr en hann sá fréttir íslenskra fjölmiðla um að hann hefði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi.
Ámælisverð vinnubrögð lögreglu
Í kjölfarið leitaði hann sér lögfræðiaðstoðar og síðan þá hefur málið farið sína leið í kerfinu. „Það sem er alvarlegast í þessu máli eru vinnubrögð lögreglunnar við að birta skjólstæðingi mínum ákæruna. Ákæruvaldið leyfði sér þau vinnubrögð að birta ákæruna fyrir öðrum lögreglumanni fyrir utan heimili Friðriks, að honum fjarstöddum. Var málið rekið fyrir héraðsdómi án þess að sakborningurinn hefði nokkra vitneskju um það. Dómstóllinn lagði síðan blessun sína yfir þessi ámælisverðu vinnubrögð með því að fallast á að um lögmæta birtingu ákæru hafi verið að ræða. Þegar dómur féll fékk skjólstæðingur minn heldur ekki að vita af því, heldur var dómurinn birtur í Lögbirtingablaðinu, án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til að birta dóminn fyrir dómþolanum sjálfum,“ segir Sara.
Hún bendir á að það eigi að vera algjört örþrifaráð að dómur sé birtur með þessum hætti í Lögbirtingablaðinu. Þá er það hreinlega í andstöðu við lög að birta ákæru fyrir lögreglumanni fyrir utan heimili ákærða. „Það er mjög mikill misbrestur í störfum lögreglu varðandi hvaða tilraunir eru gerðar til þess að ná í einstaklinga og birta þeim ákærur. Ákæruvaldinu er skylt að leita allra leiða til að birta ákærur og dóma fyrir viðkomandi,“ segir Sara.
Í mál við endurupptökunefnd
Eins og áður segir mætti Friðrik ekki til að verja sig í héraðsdómi, enda hafði hann ekki vitneskju um að málið væri rekið fyrir dómstólum hérlendis. Fyrir lá játning hans í skýrslutöku hjá dönskum lögregluyfirvöldum og var sú játning notuð til hliðsjónar þegar fangelsisdómur var kveðinn upp. „Játning hjá lögreglu er ekkert endilega gild fyrir dómi. Sakaður maður þarf að koma fyrir dóm og taka afstöðu til sakarefnisins,“ segir Sara.
Fyrir hönd Friðriks fór Sara fram á endurupptöku málsins hjá endurupptökunefnd. Nefndin féllst ekki á endurupptöku málsins og því hafi verið nauðsynlegt að fara í mál við nefndina og íslenska ríkið. „ Það voru mikil vonbrigði að niðurstaðan þar var sú að taka þátt í þessari vitleysu með dómstólum og fallast ekki á endurupptöku. Það er búið að þingfesta málið og það var jákvætt að gjafsóknarnefnd áttaði sig á mikilvægi málsins og veitti gjafsókn. Það er alveg ljóst að ef við fáum ekki ásættanlega úrlausn þessa máls þá vísum við málinu til Mannréttindadómstólsins,“ segir Sara.