Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, var í dag dæmd til að greiða hlustanda stöðvarinnar 3,3 milljónir króna. Frá þessu greinir fréttavefur Vísis.
Málið snerist um það að hlustandinn, kona, hafði lagt peninga inn á bankareikning Arnþrúðar sem síðar voru millifærðir á reikning Útvarps Sögu. Snerist deilan um það hvort um lán eða styrk hefði verið að ræða; forsvarsmenn Útvarps Sögu töldu að um styrk væri að ræða en konan hélt því fram að um væri að ræða lán.
Um var að ræða 3,6 milljónir króna í fjórum millifærslum árin 2016 og 2017.
Héraðsdómur hefur nú sem fyrr segir komist að þeirri niðurstöðu að Arnþrúður þurfi að greiða 3,3 milljónir til baka. Þá þarf hún að greiða 620 þúsund krónur í málskostnað. Að því er Vísir greinir frá verður málinu áfrýjað til Landsréttar.