Heildarkostnaður við framleiðslu forkeppninnar og þátttöku Íslands í Eurovision er samtals um 90 milljónir króna. Þetta segir í svari Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, við fyrirspurn DV. Ari Ólafsson, keppandi Íslands, náði ekki að komast í úrslit. Var það framlag Ísraels sem sigraði á laugardagskvöldið.
Upphæðin er svipuð og í fyrra, 90 milljónir króna. Áætlaður kostnaður vegna þátttöku í Lissabon er ríflega 30 milljónir króna, segir Skarphéðinn að þá sé mikilvægt að líta til þess að innifalið í þeim kostnaði séu þátttökugreiðslur til EBU, tæknikostnaður á Íslandi, allur ferðakostnaður og laun þátttakenda.
Skarphéðinn segir að það líti ekki út fyrir annað en að verkefnið í heild komi til með að standa undir kostnaði líkt og gert sé ráð fyrir í áætlunum og reynsla fyrri ára hefur gefi til kynna. Í fyrra hafi Íslendingar horft hlutfallslega mest á Eurovision þegar litið er til Evrópubúa en um 98% sjónvarpsáhorfenda hér á landi horfðu á úrslitakvöld Eurovision. „Engin þjóð kemst með tærnar þar sem við Íslendingar höfum hælana í þessum efnum,“ segir Skarphéðinn.