Ljóst er að gríðarlegt tjón hefur orðið í eldsvoða í húsnæði Geymslna í Miðhrauni í Garðabæ. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja leigir þar geymslur undir eigur sínar og verðmæti.
Einnig er ljóst að um flókið mál verður að ræða tryggingalega séð, þar sem að tryggingar eru ekki innifaldar í leiguverði hjá Geymslum, eins og kemur fram á heimasíðu þeirra.
„Nei, tryggingar eru ekki innifaldar í leigu. Hins vegar gerum við hvað við getum til að minnka hættu á tjóni. Við erum með brunavarnakerfi, þjófavarnarkerfi, eftirlitmyndavélar með upptöku, vatnslekaviðvörunarkerfi og fleira. Við bendum þér á að hafa samband við tryggingarfélagið þitt og athuga hvort þú getir bætt þessari tryggingu við til dæmis heimilistryggingu án aukakostnaðar.“
Leigutakar í húsnæði hjá Geymslum þurfa því að skoða vel hvort tryggingar hjá þeirra tryggingafélagi bæti þeim tjónið.