Sælgæti í búk einræðisherrans
Málið kom upp í bænum Macerata í austurhluta landsins þann 25. apríl en á þeim degi fagna Ítalir lausn undan fasisma ár hvert. Nokkrir andfasistar gerðu dúkkueftirlíkingu af Mussolini og hengdu hana upp á fótunum líkt og líkt og gert var við lík einræðisherrans eftir að hann var tekinn af lífi árið 1945 í Mílanó. Innan í dúkkunni var sælgæti og börnin í nágrenninu voru hvött til að slá í hana til að ná sælgætinu út, siður sem þekkist víða um heim.
Þegar hausinn féll af dúkkunni var komið með aðra dúkku af svartklæddum manni með kross á bringunni. Sú dúkka átti að tákna Luca Traini, sem særði sex afríska innflytjendur í byssuárás í febrúar síðastliðnum. Traini sagði að sú árás væri hefnd fyrir morð á konu sem nígerískur maður var grunaður um að hafa framið.
Romano Carancini, bæjarstjóri Macerata hefur fordæmt atvikið og segir hana á engan hátt tengjast hátíðarhöldunum. „Þetta er óásættanleg ögrun sem svíkur allt það sem 25. apríl stendur fyrir á Ítalíu. Þetta skaðar einnig málstað andfasista og borgina.“ Carancini staðfesti að lögreglan væri nú að rannsaka málið og reyna að hafa upp á þeim sem stóðu að þessu.
Maurizio Gasparri, þingmaður hægri flokksins Forza Italia, sagðist ætla að taka málið upp á landsþinginu. Þá sagðist samflokkskona Gasparri, og barnabarn einræðisherrans, Alessandra Mussolini ætlar að heimsækja Macerata á föstudag.
Benito Mussolini er ekki jafn fyrirlitinn í Ítalíu og Adolf Hitler er í Þýskalandi. Margir líta enn til hans með aðdáun og víða er hægt að sjá minningarmuni tengda honum, til dæmis í minjagripabúðum. Fæðingarstaður hans, Predappio, er vinsæll ferðamannastaður og margir stjórnmálamenn úr stórum stjórnmálaflokkum veigra sér ekki við að lýsa aðdáun á honum.
Andfasistar hafa reynt að berjast gegn upphafningu Mussolini í gegnum tíðina og til dæmis reynt að fá í gegn svipað bann og ríkir í Þýskalandi þar sem nasismanum má ekki hampa. Oft hefur skorist í brýnu milli þeirra og fasistahópa sem eru ófáir í landinu.