Smáforritið Show My Day var búið til í Aabenraa í Danmörku og hefur náð töluverðri útbreiðslu víða um heim. Smáforritið segir notendum til dæmis hvenær þeir eigi að fara í bað, klæða sig, taka strætó og hvenær eigi að hitta einhvern. Betina Carstens bjó smáforritið til en lét sig ekki dreyma um að það yrði vinsælt víða um heim. Það sem rak hana áfram var að sonur hennar er einhverfur og þarfnaðist yfirsýnar og skipulags í hinu daglega lífi.
Smáforritið segir til upp á mínútu hvenær á að gera ákveðna hluti og þegar notandinn hefur merkt við að hann hafi gert þá getur hann snúið sér að næsta verkefni. Með þessu fær notandinn sýn yfir verkefni sín. Smáforritið er nú notað í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Færeyjum. Auk þessu eru skólar í Boston í Bandaríkjunum nú að kynna sér smáforritið og kosti þess.
En það eru fleiri en einhverfir sem nota smáforritið því margir fullorðnir, sem glíma við andlega fötlun, eru farnir að nota það segir í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins um málið. Þar er haft eftir Cecilie Granbjerg, 19 ára þroskaheftri konu, að henni líði miklu betur eftir að hún fór að nota smáforritið. Nú eigi hún miklu auðveldara með að komast í gegnum daginn. Smáforritið segi henni hvenær hún eigi að fara að sofa, hvenær hún eigi að gera ákveðna hluti eða hitta einhvern.