fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Það sem ekki kom fram í yfirlýsingu Sindra – Sagður hafa beitt blekkingum til að komast á Sogn

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 20. apríl 2018 09:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem þekkja til Sindra Þórs Stefánssonar telja hann hafa byrjað að skipuleggja flótta sinn fyrir nokkrum vikum. Sindri sat í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði en var sendur á Sogn þó svo að gæsluvarðhaldi væri ekki lokið. Fangelsið á Hólmsheiði er rammgert og þaðan er ekki auðvelt að strjúka. Sindri er grunaður um aðild að þjófnaði á 600 tölvum sem og innbrotum.

Fyrsta skrefið til að ná að komast úr landi var að fá flutning á Sogn eða í annað sambærilegt opið úrræði. Samkvæmt heimildum DV sagði Sindri að honum liði illa á Hólmsheiði og hætta væri á að yrði hann þar áfram myndi hann jafnvel skaða sjálfan sig. Þá segir einn heimildarmanna DV að Sindri hafi tjáð fangavörðum að hann heyrði raddir. Sindri hefur einnig sýnt af sér góðan þokka í fangelsinu. Stutt er síðan mikið fjölmiðlafár varð vegna andláts fanga á Kvíabryggju og óttuðust stjórnendur að slíkt gæti nú endurtekið sig. Sindri var því færður í opið úrræði þrátt fyrir að sitja enn í gæsluvarðhaldi.

Hvernig flúði Sindri?

Flótti Sindra hefur veitt mörgum innblástur til að slá á létta strengi. Þessi mynd hefur farið á flakk um samfélagsmiðla.

Sindri virðist hafa skipulagt flóttann fyrir margt löngu og haft fangelsismálayfirvöld í vasanum. Áður en við rekjum flóttann skulum við aðeins kynnast þessum unga manni sem er að verða heimsfrægur. Sindra, sem er fæddur árið 1986, gekk illa í skóla sem barni og var greindur með ofvirkni og athyglisbrest á háu stigi. Á grunnskólaárum hikaði hann ekki við að ljúga og stela. Barnavernd hafði snemma afskipti af Sindra og flakkaði hann á milli stofnana í nokkur ár. Þá var hann sendur á hina ýmsu sveitabæi. Þegar Sindri var um tvítugt voru 200 lögreglumál í kerfinu sem tengdust honum með einum eða öðrum hætti. Í flestum þeirra var hann höfuðpaurinn.

Sextán ára var hann sokkinn djúpt í neyslu og reykti þá eingöngu kannabis. Um það tímabil sagði Sindri: „Mér varð alveg sama um allt, öll mörk voru farin. Á innan við tveimur árum frá fyrsta kannabisreyknum sem ég andaði að mér var ég búinn að prófa allt, þá meina ég allt. Og þar á eftir tóku við sex ár af mjög erfiðu tímabili fyrir mig og alla sem voru í kringum mig.“

Sindri endaði á vergangi og á götunni. En Sindri fór í hverja meðferðina á fætur annarri og náði loks árangri árið 2011 og náði að vera án vímuefna minnst í nokkur ár. Náði hann aftur tengslum við fjölskyldu, eignaðist konu og börn og hóf að stunda nám. Hann fékk síðast dóm árið 2015 þegar hann var gripinn með 130 grömm af amfetamíni og um 200 grömm af grasi.

Lögregla furðar sig á ákvörðun um að senda Sindra á Sogn

Sindri á leið úr landi með handfarangur og spjaldtölvu undir hendinni.

Sindri virðist hafa villst aftur af leið, en hann ætlaði sér ekki að sitja inni. Hann strauk sama dag og stóð til að fjalla um hvort ætti að framlengja gæsluvarðhaldsúrskurðinn. Sú ákvörðun að senda Sindra á Sogn hefur verið gagnrýnd. Hulda Elsa Björgvinsdóttir á ákærusviði lögreglunnar segir í samtali við mbl.is að lögreglu væri ekki kunnugt um að gæsluvarðhaldsgangar væru vistaðir í opnu úrræði. Til að láta færa sig í opið rými hamraði Sindri á að honum liði illa í hinu nýja fangelsi og af ótta við að hann gæti mögulega skaðað sig svo úr yrði fjölmiðlafár var Sindri færður á Sogn. Hann kom líka vel fyrir og lítil hætta virtist stafa af honum. Yfirvöld munu neita þessu en heimildir DV eru traustar. Fangar sem Sindri sat með á Hólmsheiði bera honum vel söguna og hann hafi stundum slegið á létta strengi um að versla í fangelsissjoppunni með Bitcoin.

Þegar á Sogn var komið tók Sindri sér góðan tíma í að kanna aðstæður. Þar er föngum treyst. Þeir hafa aðgang að síma og hægur leikur að flakka um netheima. Sindri uppgötvaði að enginn kíkti inn í herbergi hans fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta um morguninn. Fyrrverandi fangaverðir á Sogni hafa greint DV frá því að algengt sé að verðirnir leggi sig á næturnar. Á meðan Sindri skipulagði flóttann leitaði lögreglan að hugbúnaðinum. Tölvurnar hafa ekki fundist en lögregla hefur fundið á annan tug minni og stærri tölvuvera, í gámum og byggingum sem eru nýtt til að grafa eftir Bitcoin. Sum þessara tölvuvera voru byggð á þýfi en enginn úr innbrotinu sem hefur verið lofað milljónum takist einhverjum að leysa gátuna.

Þaulskipulagður flótti

Mynd sem lögregla sendi frá sér eftir að Sindri flúði.

Hvað það varð til þess að Sindri valdi þennan dag er ekki vitað á þessari stundu. Sindri hefur eftir að þessi frétt var skrifuð sagt að honum hafi verið haldið í fangelsi án dóms og laga. Þá heldur hann fram að hann hafi ekki verið í gæsluvarðhaldi og því átt að vera frjáls ferða sinna. Á þessum tímapunkti var ekki búið að kveða upp úr hvort gæsluvarðhald yrði framlengt. Þá tíðkast að viðkomandi sé vistaður í klefa lögreglu í stað fangelsis sem er þó mun þægilegri vist. Farið var því með Sindra á Sogn þar sem hann hafði dvalið yfir 10 daga.

Þennan sama dag átti að taka fyrir hvort gæsluvarðhald yrði framlengt. Líklegt er að hann hafi óttast að hann yrði færður á nýjan leik. Hann lét alla vega til skarar skríða þetta kvöld og skreið út um gluggann. Áður hafði hann nýtt spjaldtölvuna til að fara á netið og kaupa flugmiða til Stokkhólms á nafni annars manns.

Sindri var líklega sóttur af samverkamanni og seinna um kvöldið tekur hann leigubíl að Leifsstöð og framvísaði skilríkjum annars manns. Sindri gætti þess að vera mættur mörgum tímum fyrir brottför. Hann vissi að mögulegt væri að flóttinn myndi uppgötvast klukkan átta um morguninn. Yfirvöld myndu þá byrja á að skoða myndskeið af fólki sem væri að koma að flugstöðvarbyggingunni tveimur til þremur tímum fyrir brottför. Sindri flaug svo til Svíþjóðar með Icelandair. Í sömu vél var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Þess má geta að hún er sérstakur áhugamaður um glæpasögur! Þetta fangaflug forsætisráðherra myndi aldrei ganga upp í kvikmynd, svo ótrúverðug er þessi atburðarás.

Sindri hefur daginn eftir að þessi frétt var skrifuð sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann heldur fram sakleysi sínu og reynir að færa rök fyrir því að hann hafi verið frjáls maður. Sindri segir:

,,Ég mundi aldrei reyna að flýja fangelsi ef ég væri löglega sviptur frelsi mínu af ákvörðun dómara, það er staðreynd. Þann 16. apríl sl. kl. 15.00 fór ég fyrir framan dómara þar sem ákæruvaldið fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í 10 daga í viðbót og dómarinn tók þá ákvörðun hugsa sig um þar til 17. apríl sl. kl. 09.30, daginn eftir. Dómari setti ekki fram tímabundið gæsluvarðhald meðan umhugsunarfrestur stendur yfir. En þennan sama dag 16. apríl, eða einni klukkustund eftir fyrirtökuna, klukkan 16.00 rann út gæsluvarðhaldið og þar með var ég frjáls. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en síðar um daginn þegar starfsfólk fangelsisins á Sogni kallaði mig til sín á fund. Þar var ég upplýstur um það að ég væri frjáls maður þar sem gæsluvarðhaldið væri útrunnið en undir þeirri hótun að lögreglan myndi handtaka mig ef ég yfirgæfi fangelsið án skýringa. Ég var neyddur til að undirrita pappír sem á stóð að ég væri frjáls ferða minna en ef ég færi mundi ég gista í fangaklefa þar til framlenging á gæsluvarðhaldi væri samþykkt.“

Þá sagði Sindri einnig:

,,Ég einfaldlega neita að vera í fangelsi af mínum eigin og frjálsum vilja, sér í lagi þegar lögreglan hótar mér handtöku án skýringa. Ég er ekki að reyna að segja að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að fara, og ég sé mjög mikið eftir því, þar sem fjölskylda mín hefur þurft að þjást vegna mikils áreitis frá fjölmiðlum og almenningi. Ég bjóst ekki við því að fá alþjóðlega handtökuskipun því ég var frjáls ferða minna og taldi því útilokað að vera stimplaður strokufangi. Ég hefði aldrei gert þetta nema ég teldi mig vera frjálsan ferða minna.“

Þá skal tekið fram að Sindri vissi að hann yrði handtekinn ef hann myndi fara úr fangelsinu. Hann flúði að nóttu í annað land. Það tíðkast að vera í vist í lögregluklefa á meðan dómari tekur ákvörðun. Klefar á Hverfisgötu, þar sem eru plastdýnur og plastkoddar eru mun óþægilegri heldur en mjúkar sængur og þægileg rúm í herbergjum á Sogni. Sindri þekkir sjálfur muninn vel enda á unglingsaldri kominn með talsverða reynslu af fangaklefum hér á landi. Þá ber að geta þess að samkvæmt sakamálalögum er heimilt að halda mönnum í allt að 24 klukkustundir áður en úrskurður um gæsluvarðhald liggur fyrir.

Er Sindri í Rússlandi eða á Spáni?

Sindri hefur eignast stóran aðdáendahóp sem vill að hann fái uppreist æru. Sindri þykir klókur með eindæmum.

En hvað tók svo við þegar Sindri lenti í Svíþjóð? Nú, hann fór fljótlega á Facebook en þá í þeim tilgangi að loka síðunni sinni. Slíkt gerði kona hans líka, þó aðeins síðar. Flóttinn hefur vakið heimsathygli og á Sindri ótal aðdáendur sem lofsyngja flóttann og gáfur hans. Sem dæmi má nefna að á Facebook-síðunni Það sem enginn viðurkennir hefur verið póstað mynd sem á stendur: „Team Sindri“. Þar er ungi strokufanginn lofsunginn og vill stór hluti að hann hljóti uppreist æru fyrir flóttann mikla. „Vel skipulagt og allt kortlagt i hausnum á honum gáfaður gaur,“ segir kona að nafni Guðlaug. Einn sá flottasti.“

Nú leita yfirvöld að leigubílstjóra sem ók silfurgráum Skoda station bíl. En hvar er Sindri núna? Heimildarmenn DV telja að hann hafi jafnvel flúið til Rússlands en þangað er talið að hluti af tölvubúnaðinum hafi endað eða sé á Spáni þar sem hann á íbúð. En mun hann finnast? Ef Sindra tekst að vera þolinmóður og láta sér vaxa hár og skegg í leyni gæti orðið snúið að hafa uppi á honum. Slóðin kólnar hratt.

En hvað sem verður fylgist þjóðin spennt með og heimurinn allur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás