fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Stofnuðu allsherjarsöfnun fyrir fórnarlömb brunans í Miðhrauni: Samfélagsmiðlar loga af gagnrýni

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 14. apríl 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og alkunnugt er varð gríðarlegt fjárhagslegt og tilfinningalegt tjón þegar eldur kom upp í Miðhrauni í Garðabæ í síðustu viku. Yfir 300 geymslur brunnu með eigum leigutaka þeirra og misstu sumir aleiguna á örskömmum tíma. Af náungakærleik einum saman ákváðu Kristjana Sveinsdóttir og Rannveig Tenchi að bregðast við og auglýstu á eigin Facebook-veggjum og í stórum hópum á Facebook, eins og Góða systir, allsherjarsöfnun fyrir fórnarlömb brunans.

Í langri færslu sem þær deildu á Facebook segir meðal annars: „Söfnunin verður í gangi til 10. maí næstkomandi og um helgina verður opnaður Facebook-hópur fyrir velunnara hennar þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi hennar. Við munum tilkynna vikulega hvernig söfnuninni fram vindur inni í þessum hóp þar til styrkirnir verða greiddir út til þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem misstu sínar eigur í brunanum. Höfum við nú þegar leitað til forsvarsmanna Geymslur.is til þess að fá nauðsynleg gögn yfir þessa aðila svo við getum skipt upphæðinni á milli þeirra á sanngjarnan hátt.“

Kristjana segir: „Ég var búin að fylgjast með málinu í fréttum og mig tók þetta sárt fyrir hönd þeirra sem misstu búslóðir þarna. Við þekkjum það eftir hrun hvernig er að vera eignalaus eða íbúðarlaus, ég fór sjálf illa út úr hruninu á sínum tíma. Ég veit til þess að einstaklingar sem áttu búslóðir þarna voru með þær í geymslu, af því að þeir eru á hrakhólum með húsnæði. Svo heyrði ég að ein vinkona mín hefði misst búslóðina í brunanum. Ég sá líka fréttina um einstæðu móðurina í DV og fann til með henni, enda einstæð móðir sjálf. Ég skildi ekki af hverju engin söfnun var farin af stað.“ Kristjana ákvað því að setja sjálf söfnun af stað, fékk Rannveigu í lið með sér og stofnaði söfnunarreikning.

Söfnun sætir gagnrýni á samfélagsmiðlum

Vægt til orða tekið fékk þessi hugmynd þeirra mjög misjöfn viðbrögð meðal notenda samfélagsmiðla. Meðan nokkrir dásömuðu framtakið og náungakærleikann voru fleiri sem settu spurningarmerki við söfnunina, eins og til dæmis hvernig þær hygðust deila söfnunarfénu á réttlátan hátt. Geymslur.is hefðu heldur enga heimild til að láta af hendi lista um leigjendur geymslna hjá þeim og engin leið væri að færa sönnur á verðmæti í hverri geymslu fyrir sig, sumir hafi verið þar með mikil verðmæti, á meðan aðrir hafi jafnvel geymt þar gamlar tuskur, ef svo má segja.

Aðrir gerðu grín að því að upphæðir mættu vera frá 1.000 krónum. „Þannig að ef maður getur bara sett 500 kr. þá má maður ekki vera með?“ skrifar einn netverji.

„Ég leigði geymslu þarna og missti margt. Er mjög hissa á framkvæmd þessarar söfnunar. Vilja þau ekki fá mynd af okkur grátandi líka til að sanna það að við misstum eitthvað í þessum bruna?? Svo að hafa samband við Geymslur til að fá afhentar persónuupplýsingar fyllir alveg mælinn. Fallega hugsað en algjörlega vanhugsað,“ skrifar annar.

„Fólkið er í neyð núna“

„Ég verð að viðurkenna að ég er mjög svekkt yfir viðbrögðunum og athugasemdum um að fólkið muni jafnvel fá skaðabætur seinna. Fólkið er í neyð núna, er ekki frábært að þau fái skaðabætur seinna?“ segir Kristjana. „Ef maður getur hjálpað með einhverjum hundrað þúsund köllum núna þá getur það skipt sköpum fyrir fjölskyldufólk.“

Eftir mikla gagnrýni og athugasemdir var færslan fjarlægð úr hópnum Góða systir, þar sem eru 50.606 meðlimir eða um 1/7 íslensku þjóðarinnar. „Ég dró mig úr þeim hópi, mér finnst leitt að sjá svona neikvæðar raddir þegar maður er að reyna að hjálpa. Ég hélt að við Íslendingar værum með meiri samkennd, þetta er ekki mannskaði en gífurlegt áfall fyrir þá sem eiga í hlut. Ég spyr mig hvar er samkenndin hjá Íslendingum þegar svona gerist?“ segir Kristjana.

„Það er meira að segja varla að fólk nenni að deila færslunni okkar. Mér finnst ekki rétt að safna bara fyrir einn einstakling. Það er fjöldi fólks sem missti búslóðina sína þarna og mér finnst við þurfa að hjálpa öllum sem þurfa. Þó að þetta séu veraldlegir hlutir þá tengjumst við þeim, ég á til dæmis kaffibolla heima sem amma mín átti og ef hann myndi brotna þá væri ég líklega mánuð að jafna mig. Við elskum hlutina okkar.“

„Fólk hefur tilfinningar og á sínar minningar, við verðum að virða og vernda það.“

„Ég sá að Kristjana var að velta þessu fyrir sér, hvort það væri einhver söfnun í gangi og við fórum að spjalla saman um það hvort við ættum ekki bara að skella í eina fyrir þetta fólk?,“ segir Rannveig. „Við hjónin geymdum alla okkar búslóð í þessum geymslum fyrir nokkrum árum, þá vorum við í húsnæðisleit og stóð sú leit yfir í hálft ár. Það hefði verið virkilegt áfall að missa allt okkar í svona bruna, enda eigum við mikið af eigum frá ömmum og öfum okkar, svo dæmi séu nefnd.
 
Þegar bruninn í Skeifunni varð um árið þá áttum við svo eigur þar sem brunnu og þó að það hafi verið skýrara ferli að eiga við að þá tók það á að missa hlutina sína þar. Við fengum það bætt fjárhagslega, en tilfinningalega aldrei.
 
Ég veit að það er fólk þarna úti sem segir að við eigum ekki að tengjast veraldlegum hlutum tilfinningalegum böndum og að hluta er ég sammála, en tilfinningar eru órökréttar í eðli sínu og þær eru sterkt tengdar minningum okkar. Hver hefur rétt á að segja annarri manneskju hvernig hún á að meðhöndla tilfinningar sínar eða minningar? Það er einfaldlega persónubundið hvernig við gerum þetta og við höfum öll rétt á okkar eigin tilfinningum og tengslum við minningar okkar. Ég á til dæmis mikið af hlutum frá móður minni og ömmu og afa (foreldrum hennar), þau eru öll látin (mamma mín dó fyrir rúmum sex árum síðan og var þá ekki nema 51 árs). Allt sem ég á eftir þau er mér gríðalega mikilvægt því ég sakna þeirra mikið.
 
Ég er alls ekki sú eina sem get sagt sögu sem þessa. En einmitt þess vegna vildi ég taka þátt í því að setja þessa söfnun í gang. Af því að fólk hefur tilfinningar og á sínar minningar, við verðum að virða og vernda það.“

Markmið söfnunarinnar skilgreind og Facebook-hópur stofnaður

Þrátt fyrir gagnrýni halda Kristjana og Rannveig samt ótrauðar áfram og hafa stofnað Facebook-hóp og skilgreint þar markmið söfnunarinnar. Aðspurð um hvernig söfnunarfé yrði ráðstafað svarar Kristjana því til að fólk yrði beðið um að koma með staðfestingu á leigusamningi við Geymslur.is og skriflega staðfestingu frá ættingjum og vinum um að þar hefði verið búslóð. „Við viljum að fólk gefi sig fram við okkur með þessi gögn. Þetta er ekki formleg staðfesting, svo þarf maður bara að treysta, það er alltaf hægt að svindla á öllu.“

Lítið hefur safnast enn sem komið er. „Kannski vill fólk sjá betur hvernig við skilgreinum söfnunina og vonandi kemur meira þegar við deilum hópnum. Við ætlum allavega að gefa þessu mánuð og vonum að söfnunin fari á flug. Við erum að vanda til verka að halda vel utan um söfnunina og hafa allt uppi á borðum,“ segir Kristjana, en þær hafa ekki staðið að slíkri söfnun áður. „Ef ekkert kemur út úr söfnuninni, þá getum við allavega sagt að við höfum reynt.

Við megum ekki gera upp á milli fólks og við verðum að treysta því að þeir sem gefi sig fram þurfi á aðstoð að halda. Við höfum ekki leyfi til að spila einhverja félagsmálafulltrúa.

Ég vonast til að þegar við póstum hópnum þá fáum við fleiri í lið með okkur. Það er leiðinlegt fyrir fólkið að Íslendingar taki ekki betur í slíka söfnun. En ef einhver vill taka hana yfir fyrir okkar hönd þá er það í góðu lagi, ég vil bara sjá að það sé eitthvað gert fyrir þetta fólk.“

Ljóst er að þó að slokknað sé í glæðum brunans í Miðhrauni, þá logar enn glatt í athugasemdakerfum samfélagsmiðlanna yfir þessu máli og ekki eru öll kurl komin til grafar um hvort og að hve miklu leyti fólk muni fá eigur sínar bættar.

Fyrir þá sem vilja leggja söfnun Kristjönu og Rannveigar lið þá er reikningurinn 0101-05-010074 og kennitala 201075-2979.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu