Alþingi felldi vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í gærkvöldi með 33 atkvæðum gegn 29. Einn þingmaður sat hjá. Tveir þingmenn Vinstri grænna studdu vantrauststillöguna, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, sömu þingmennirnir sem vildu ekki að Vinstri græn færu í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Þetta er í fyrsta sinn í sex áratugi sem vantrausttillaga er sett fram á einn tiltekinn ráðherra, síðustu vantrauststillögur hafa allar snúið að ríkisstjórninni í heild.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að vantraust á dómsmálaráðherra myndi ekki eyða réttaróvissu varðandi skipanir dómara í Landsrétt en vildi að sama skapi ekki draga alvarlega úr dómi Hæstaréttar er varðar embættisfærslur Sigríðar Andersen. „Ég tel hins vegar að þessi tillaga þjóni ekki slíkum markmiðum og ég mun því greiða atkvæði gegn henni,“ sagði Katrín á Alþingi í gær.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði í samtali við DV að vantraust væri nauðsynlegt til að auka tiltrú á Landsrétti. „Dómsmálaráðherra hefur í tvígang verið dæmd í Hæstarétti fyrir ólögmæta embættisfærslu og það er fyrirséð og hefur nú þegar hafist að málaferli verða í gangi um nokkurt skeið vegna hennar starfa. Hennar ólögmætu embættisfærslur hafa þegar valdið skattgreiðendum miklu fjárhagstjóni, ófyrirséð er hversu langan tíma málaferlin taka og hversu mikið fjárhagstjón verður þegar upp er staðið.“