fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Alþingi bannar þingmönnum að afþakka sporslur – Þingmenn settu reglurnar sjálfir

Þingmenn allra flokka samþykktu reglurnar eftir fjögurra mínútna umræðu

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 2. mars 2018 17:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að þingmenn í landsbyggðarkjördæmum geti ekki afþakkað húsnæðis- og dvalargreiðslur. Reglur um greiðslur til þingmanna eru nokkuð á reiki. Í upplýsingum sem birtar eru á vef Alþingis kemur í ljós að sumir þingmenn Norðvesturkjördæmis og Suðurkjördæmis fá ekki greiddan húsnæðis- og dvalarkostnað nema að hluta. Sem dæmi fær Smári McCarthy, þingmaður Pírata, í Suðurkjördæmi 134 þúsund krónur á mánuði en ekki Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi. Smári býr í Vesturbæ Reykjavíkur en Vilhjálmur býr í Grindavík. Á móti kemur að Vilhjálmur keyrði 35 þúsund kílómetra í fyrra og fékk fyrir það 3,4 milljónir í akstursgreiðslur frá Alþingi.

Að sama skapi fær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis, greiddan húsnæðis- og dvalarkostnað, Þórdís býr í Kópavogi. Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í sama kjördæmi, býr á Akranesi en fær engar greiðslur vegna húsnæðis.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þeir sem eru kjörnir fyrir landsbyggðarkjördæmin fá húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu. Ef þú ert landsbyggðarþingmaður úr þessum stóru kjördæmum þremur þá færð þú þessa greiðslu samkvæmt skilgreiningu. Það er skýringin á því til dæmis að Steingrímur fær svona greiðslu, af því að hann er þingmaður Norðausturkjördæmis. Hann verður bara að taka við þessari greiðslu. Ekki vegna þess að hann hafi sótt um hana eða neitt slíkt og lögheimilið skiptir engu máli í því sambandi. Það fá allir þessa greiðslu,“ segir Helgi Bernódusson í samtali við DV. Vísar hann til frétta af húsnæðis- og dvalargreiðslum til Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis og þingmanns Norðausturkjördæmis, sem hefur búið í Breiðholti í minnst 30 ár.

Mynd: Hordur Sveinsson

Vilhjálmur fær ekki húsnæðisgreiðslur

Vilhjálmur Árnason fær ekki húsnæðis- og dvalargreiðslur frá Alþingi. Eins og DV greindi fyrst frá þá var hann í öðru sæti yfir þá þingmenn sem þáðu hæstu greiðslur vegna aksturs í fyrra. Hann segir að það sé að koma sífellt betur í ljós að þegar allar greiðslurnar séu lagðar saman þá sé hann ekki með dýrustu þingmönnunum. „Ég er kannski í öðru sæti á þessum aksturslista en ég vissi að ég væri aldrei kostnaðarsamasti þingmaðurinn. Ég er ekki með neitt álag, rukka ekki fyrir einhverjar hótelgistingar, sali eða veitingar, ég hef aldrei gert það.“ Vilhjálmur kom af fjöllum þegar blaðamaður spurði hann um húsnæðis- og dvalargreiðslur. „Ég hef aldrei fengið það.“

Þingmenn sem sannarlega halda tvö heimili eiga einnig rétt á álagsgreiðslum upp á 53 þúsund krónur sem bætast ofan á húsnæðis- og dvalargreiðslurnar. Hafa bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagt við DV að þeir þiggi ekki álagsgreiðslurnar.

Mynd: © Bragi Þór Jósefsson

Afþakkaði greiðslur

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, afþakkaði ráðherralaun árið 2009, hann segir í samtali við DV að það hafi ekki verið neitt vandamál að afþakka greiðslurnar. „Ég tók aldrei ráðherralaun, fór bara niður á slétt þingfararkaup.“

Var það ekkert vandamál?

„Ég hef lesið um það í fjölmiðlum að þetta geti ekki hafa verið svo en þannig var það nú. Ef þetta var ekki hægt þá skuldar ríkið mér einhverja peninga, en þetta var hægt. Þegar ég tók við ráðherraembætti þá var verið að skera niður í velferðarkerfinu og mér fannst ekki stætt á öðru en að sýna smá lit sjálfur.“

Ögmundur segir að hann hafi heldur ekki þegið greiðslur vegna starfskostnaðar, hann hafi hins vegar fengið greidda reikninga vegna tölvukostnaðar. „Ég var alla tíð andvígur þessum starfskostnaði sem var ákveðinn um miðjan tíunda áratuginn, mér fannst að það ættu að vera skýrar línur í kringum ákvarðanir kjararáðs eða þingið kæmi að þessu. Það var þingið, en ekki kjararáð, sem tók ákvarðanir varðandi starfskostnað.“

„Hann skal fá hana“

DV bar fullyrðingar Ögmundar undir Helga sem áttaði sig strax á að um Ögmund væri að ræða. „Hann er þingmaður Reykjavíkur og fær því engar húsnæðisgreiðslur. Greiðslurnar sem hann afþakkaði eru starfsgreiðslur. Þar geta þingmenn fengið fastar greiðslur eða afþakkað og látið okkur fá reikninga. Það er ekki hægt að segja sig frá þessu.“ Varðandi ráðherralaunin segir Helgi þau vera á vegum stjórnarráðsins. „Ráðherralaunin eru tvískipt. Annars vegar þingfararkaupið og hins vegar ráðherraparturinn. Við greiðum þingfararkaupið, við höfum ekkert með hitt að segja.“

Helgi segir að landsbyggðarþingmenn sem búi í rúmlega klukkutímaaksturs fjarlægð frá Reykjavík og geti ekið til vinnu séu skráðir í heimanakstur. Tók hann Vilhjálm Árnason sem dæmi. „Hann fær eins og allir aðrir húsnæðisgreiðslur, það fá allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna og það er engin undankoma fyrir þá, en þeir sem geta ekið frá heimili sínu til Alþingis – þeir sem eiga til dæmis heima á Suðurnesjum, Akranesi og Selfossi, þeir fá bara einn þriðja af þessum greiðslum enda endurgreiðum við aksturskostnaðinn.“

Getur þingmaður landsbyggðarkjördæmis sem býr aðeins í Reykjavík skráð sig í heimanakstur?

„Nei. Ef þú ert til dæmis þingmaður Norðausturkjördæmis og býrð í Fossvoginum þá færð þú bara hina venjulegu húsnæðisgreiðslu. Hún er til þess að borga leigu í Reykjavík ef þú ert búsettur úti á landi. Ef þú býrð í Reykjavík en ert í kjördæmi úti á landi þá er það til að borga ferðir og gistingu í kjördæminu.“

Helgi nefndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem dæmi. „Sigmundur er búsettur í höfuðborginni. Hann fær húsnæðisgreiðslu. Hann skal fá hana. En hann á þá ekki rétt á að fá neitt borgað í kjördæmi sínu. Hann getur þá ekki komið með reikning til okkar frá Hótel Húsavík.“

„Ég gæti vel lifað á lægri launum“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fær 187.657 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalargreiðslur. Fær hann bæði 134 þúsund krónur í húsnæðis- og dvalargreiðslur og 53 þúsund krónur í álag á húsnæðis- og dvalargreiðslur fyrir að halda úti tveimur heimilum. Þetta bætist ofan á laun hans sem þingmanns, launagreiðslur fyrir að vera formaður stjórnmálaflokks, fastan ferðakostnað í kjördæminu og fastan starfskostnað. Þegar allt er tekið saman er Logi því með 1.909.448 krónur í mánaðarlaun.

„Ég er í þeirri stöðu að ég bý með fjölskyldu minni á Akureyri og rek annað heimili hér í Reykjavík. Þessar greiðslur, 187 þúsund, ná rúmlega að standa undir öðru húsnæði. Í mínu tilfelli er það svo sannarlega þannig að ég held tvö heimili, ég er ekki viss um að það sé þannig í öllum tilfellum,“ segir Logi.

Ekki allir þingmenn sækja um álagsgreiðslur. „Það er ekki þannig að ég sé að biðja um þetta á hnjánum, ég geri ekki athugasemdir við það að einhverjum finnist þetta óeðlilegt en svona eru starfskjörin.“ Logi segist skilja umræðuna, það sé sjálfsagt að allar upplýsingar séu uppi á borðum og að ná þurfi sátt um kjör þingmanna. Staðreyndin sé hins vegar að hann haldi tvö heimili. „Mér finnst of mikil einföldun að blanda saman laununum sem slíkum, sem má alveg skoða, og kostnaðinum sem fylgir því að þurfa að vera í Reykjavík. Það er ekki óskastaða fjölskyldufólks að búa fjarri fjölskyldu sinni. Ég hefði viljað sinna starfinu á Akureyri en það er ekki hægt.“
Sem fyrr segir fær Logi 53.000 króna álagsgreiðslu sem hann sótti um.
Þú ert með 1,6 milljónir í fastar launagreiðslur, finnst þér þú þurfa þessar auka 50 þúsund krónur?

„Nei, ég er á mjög góðum launum. Ég sóttist ekki eftir þingsæti þegar kjörin voru svona, ég bauð mig fram fyrir ákvörðun kjararáðs og lækkaði þá í launum miðað við vinnuna sem ég hafði. Svo gerist margt, ég verð formaður, niðurstaðan er sú að ég er á mjög háum launum. Auðvitað er það þannig að ég gæti vel lifað á lægri launum.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Segir húsnæðisgreiðslurnar mega vera lægri

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tekur í sama streng og Logi. „Ég var kosinn inn á sama tíma og Logi, ég átti von á því að taka á mig launaskerðingu en ekki að fá hækkun. Það er bara þannig. Auðvitað á þetta að fylgja eðlilegum kjörum á vinnumarkaði, það er enginn á móti því að þingmenn fái vel greitt fyrir vinnuna sína en fyrr má nú fyrr vera. Þetta er orðið snargalið,“ segir Smári.

„Það er eðlilegt að allar þessar upplýsingar séu birtar og furðulegt hvað hefur þurft að ganga á eftir því að fá þessar upplýsingar birtar. Eins og oft með svona birtingar þá kemur ýmislegt óvænt upp þegar fólk hefur notið þess að starfa í skjóli leyndar.“

Smári segir áhugaleysi þingmanna um að setja lög á ákvörðun kjararáðs árið 2016 valda sér vonbrigðum. „Við fórum ítrekað fram á að það yrði lagað. Það eina sem var gert var að lækka aðeins starfskostnaðinn og eitthvað af þessum sporslum, en var ekki hægt að ganga mjög langt á það.“

Smári er þingmaður Suðurkjördæmis en býr í Vesturbæ Reykjavíkur og fær húsnæðis- og dvalargreiðslur upp á 134 þúsund krónur. „Þær aukagreiðslur sem koma eru nóg til að dekka allt sem ég er að gera sem þingmaður og rúmlega það. Þetta mætti vera töluvert lægra. Ég skil ekki af hverju þetta er svona hátt en ég skil að það sé töluvert meiri kostnaður hjá sumum sem búa úti á landi og eru bara hér fjóra eða fimm daga vikunnar. Sem og þau sem búa í mörg hundruð kílómetra fjarlægð og keyra í vinnuna á hverjum degi, ég skil ekki hvernig þau nenna því en það er annað mál.“

Fá laun frá Alþingi fyrir að vera formenn flokka

Þann 15. desember árið 2003 var samþykkt breyting á lögum um þingfararkaup alþingismanna á þá leið að formenn stjórnmálaflokka sem væru ekki ráðherrar en ættu sæti á Alþingi fengju 50 prósenta álag á þingfararkaupið. Var þessari breytingu ætlað að jafna aðstöðumun ráðherra og stjórnarandstöðuformanna. Samanlagt var málið rætt í þrjár mínútur og samþykkt með 52 atkvæðum gegn engu, 11 þingmenn voru fjarverandi. Meðal þeirra sem samþykktu frumvarpið voru fjórir þingmenn sem síðar áttu eftir að þiggja slíkt álag: Geir H. Haarde, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og Bjarni Benediktsson. Frumvarpið var samþykkt af öllum stjórnmálaflokkum sem áttu þá sæti á þingi. Greiðslurnar, sem hafa rokið upp samfara þingfararkaupi, eru óháðar árlegu framlagi Alþingis til stjórnmálaflokkanna. DV reiknaði út hvað hver formaður hefur fengið í slíkar greiðslur frá áramótum 2003/2004 samkvæmt þingfararkaupi þess tíma.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Katrín Jakobsdóttir

Formaður Vinstri – grænna 2013–2018
2013: 2.520.000
2014: 3.898.000
2015: 4.211.000
2016: 4.965.000
2017: 6.057.000
Heild: 21.651.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Formaður Framsóknarflokksins 2009–2016, Miðflokksins 2017–2018
2009: 1.820.000
2010: 3.120.000
2011: 3.275.000
2012: 3.641.000
2013: 1.240.000
2016: 3.304.000
2017: 1.101.000
2018: 1.101.000
Heild: 18.602.000

Guðjón A. Kristjánsson

Formaður Frjálslynda Flokksins 2003–2010
2004: 2.627.000
2005: 2.760.000
2006: 2.863.000
2007: 3.146.000
2008: 3.331.000
2009: 1.300.000
Held: 16.027.000

Mynd: © Birtingur ehf / Sigtryggur Ari

Steingrímur J. Sigfússon

Formaður Vinstri – grænna 1999–2013
2004: 2.627.000
2005: 2.760.000
2006: 2.863.000
2007: 3.146.000
2008: 3.331.000
2009: 260.000
Heild: 14.987.000

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Bjarni Benediktsson

Formaður Sjálfstæðisflokksins 2009–2018
2009: 2.340.000
2010: 3.120.000
2011: 3.275.000
2012: 3.641.000
2013: 1.240.000
Heild: 13.616.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Árni Páll Árnason

Formaður Samfylkingarinnar 2013–2016
2013: 2.520.000
2014: 3.898.000
2015: 4.211.000
2016: 1.780.000
Heild: 12.409.000

Logi Már Einarsson

Formaður Samfylkingarinnar 2016–2018
2016: 1.652.000
2017: 6.607.000
2018: 1.101.000
Heild: 9.360.000

Guðmundur Steingrímsson

Formaður Bjartrar framtíðar 2012–2015
2013: 2.520.000
2014: 3.898.000
2015: 2.787.000
Heild: 9.205.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Óttarr Proppé

Formaður Bjartrar framtíðar 2015–2017
2015: 1.424.000
2016: 4.965.000
Heild: 6.389.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigurður Ingi Jóhannsson

Formaður Framsóknarflokksins 2016–2018
2017: 6.057.000
Heild: 6.057.000

Mynd: Brynja

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Formaður Samfylkingarinnar 2005–2009
2005: 1.610.000
2006: 2.863.000
2007: 1.294.000
Heild: 5.767.000

Mynd: Omar Oskarsson© All Rights Reserved.

Guðni Ágústsson

Formaður Framsóknarflokksins 2007–2008
2007: 1.852.000
2008: 3.061.000
Heild: 4.913.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Össur Skarphéðinsson

Formaður Samfylkingarinnar 2000–2005
2004: 2.627.000
2005: 1.150.000
Heild: 3.777.000

Mynd: Brynja

Inga Sæland

Formaður Flokks fólksins 2016–2018
2017: 1.101.000
2018: 1.101.000
Heild: 2.202.000

Benedikt Jóhannesson

Formaður Viðreisnar 2016–2017
2016: 1.652.000
Heild: 1.652.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Formaður Viðreisnar 2017–2018
2017: 551.000
2018: 1.101.000
Heild: 1.652.000

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Oddný G. Harðardóttir

Formaður Samfylkingarinnar 2016
2016: 1.533.000
Heild: 1.533.000

Mynd: Mynd DV

Geir H. Haarde

Formaður Sjálfstæðisflokksins 2005–2009
2009: 780.000
Heild: 780.000

Mynd: DV Sigtryggur Ari

Valgerður Sverrisdóttir

Formaður Framsóknarflokksins 2008–2009
2008: 281.000
Heild: 281.000

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“
Fréttir
Í gær

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð