Stefnt að breyttu verklagi – Fundað verður í Ráðherrabústaðnum á föstudögum
Stefnt er að því að fækka reglulegum ríkisstjórnarfundum úr tveimur í einn og gera samhliða breytingar á vinnulagi ríkisstjórnarinnar sem miði að því að auka skilvirkni. Þannig verði gert skylt að skila fyrr inn gögnum varðandi mál frá einstökum ráðherrum til að samráðherrar þeirri í ríkisstjórn geti farið yfir þau, leitað eftir áliti í baklandi og tekið afstöðu til mála með upplýstum hætti. Það verklag sem nú er viðhaft gefur mun minna færi á slíku.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kynnti tillögu að endurskoðun reglna um starfshætti ríkisstjórnarinnar á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Fram til þessa hafa ríkisstjórnarfundir um langt skeið verið haldnir að jafnaði tvisvar í viku, á þriðjudögum og föstudögum. Sú venja er viðhöfð að gera þarf gögn í hverju máli aðgengileg fyrir klukkan hálf fjögur daginn fyrir ríkisstjórnarfund. Ríkisstjórnarfundir hefjast síðan að jafnaði klukkan hálf tíu að morgni. Það þykir naumur tími til að ráðherra geti glöggvað sig á málum, aðeins átján klukkutímar.
Sem dæmi má nefna að síðastliðinn föstudag var þannig á dagskrá ríkisstjórnarinnar kynning á drögum að fjármálastefnu fyrir árin 2017-2022. Slíkt mál snertir augljóslega alla ríkisstjórnina. Átján klukkustundir eru hins vegar knappur tími til að kynna sér það, svo hægt sé að taka umræðu um málið á fundi ríkisstjórnarinnar.
Því er lagt til, í tillögu Bjarna, að ríkisstjórnarfundir verði að jafnaði haldnir einu sinni í viku, á föstudögum. Þá verði þeir haldnir í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, þar sem þar eru rýmri húsakynni en í stjórnarráðinu. Lagt er upp með að gögn vegna mála sem ráðherra leggja fyrir ríkisstjórn liggi fyrir á þriðjudegi í vikunni fyrir ríkisstjórnarfund. Þá muni embættismenn ráðuneytanna sem málið snerti sértaklega, séu þau fleiri en eitt, taka gögnin til skoðun og hið sama á við um ráðuneytisstjóra. Þá verði undirbúið sameiginlegt minnisblað sem ráðherranefnd um samræmingu mála fer yfir. Með þessu fyrirkomulagi er vonast til að hægt sé að bæta undirbúning fyrir ríkisstjórnarfundi og með því að hægt verði að taka vandaðri ákvarðanir.
Innan stjórnkerfisins telja menn að með þessu móti verði vinnubrögð skilvirkari og ákvarðanataka verði vandaðri fyrir vikið. Þetta séu vinnubrögð sem tíðkist víðar, til að mynda hjá dönsku ríkisstjórninni. Þá sé auðvitað ekkert sem kemur í veg fyrir að boðað sé til aukafunda, sé ástæða til þess.
Bjarni segir í samtali við DV að sumt af því sem lagt er til sé verklag sem áður þekktist. „Til dæmis að föstudagsfundir séu í ráðherrabústaðnum, það hafa verið tímabil í tíð fyrri ríkisstjórna þar sem það tíðkaðist. Sumt annað sem þarna er lagt til tengist breytingum sem hafa átt sér stað smátt og smátt, það er að segja að forsætisráðuneytið hefur verið að þróast meira í átt til hreinnar verkstjórnar með færri málaflokka beint undir sér. Tillögurnar fela í sér að verkstjórnarhlutverk forsætisráðuneytisins verður eflt með því að mál liggi fyrr fyrir áður en ríkisstjórnarfundur er haldinn. Með því gefst líka ráðrúm til að kalla til samráðsfundar ráðherra ef ástæða þykir til. Þetta leiðir að hluta til líka að því að vegna þess að flokkarnir eru þrír í ríkisstjórn getur verið þörf á auknu samráði. Fleiri dagar frá því að mál er kynnt og þar til það er tekið fyrir gera það auðveldara, gerist þess þörf.“
Á það er bent að verði þetta vinnulag tekið upp geti enginn ráðherra haldið því fram að hann hafi ekki haft vitneskju um mál, engin afsökun sé fyrir því að hafa ekki kynnt sér þau mál sem á dagskrá eru á fundum. Ráðherrar eru þar með gerðir „samsekir“ í meira mæli en áður.
Þar í ofanálag er talið líklegt að þetta fyrirkomulag muni auðvelda minni, flokkum líkt og Bjartri framtíð, sem eru með fáa ráðherra og lítið þinglið að setja sig inn í mál annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þannig hafi þeir meiri tíma til að fá bakland sitt til að kynna sér mál og taka þau út.
Bjarni segir það geta verið mjög bratt þegar þingflokkar eigi aðeins tvo eða þrjá ráðherra að mál séu tekin fyrir á fundum ríkisstjórna jafnvel aðeins hálfum sólarhring eftir að þau eru kynnt, og ætlast sé til að málin séu strax tekin á dagskrá þingflokka. „Það getur verið mjög krefjandi og sú staða hefur oft komið upp í ríkisstjórn að fresta hefur þurft málum milli funda. Þá er spurning hvort er betra að vera að fresta málum eða koma því vinnulagi á að þau liggi lengur frammi fyrir fyrsta fund og geti þar með fengið vandaðri umfjöllun.“
Tillögunni var ágætlega tekið við kynningu að sögn Bjarna en hann leggur áherslu á að málið sé enn til skoðunar. Stefnt sé að því að taka það á dagskrá ríkisstjórnarinnar á næstunni, jafnvel sé mögulegt að það verði afgreitt í dag.