„Ég ber virðingu fyrir Áslaugu Örnu og hef alltaf gert“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins hjó í áttina að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar í pistli í Morgunblaðinu í gær. Eyjan tók málið upp. Áslaug Arna sagði:
„Það er til að mynda mjög auðvelt að tala fyrir svokölluðum kerfisbreytingum án þess þó að lyfta litlafingri í því að taka á kerfinu þegar þess þarf eða stuðla að umfangsmiklum breytingum. Það er líka mjög auðvelt að segja sjálfan sig tala fyrir „almannahagsmunum“ en ekki „sérhagsmunum“ og reyna þannig að stilla þeim sem kunna að vera ósammála þér upp við vegg. Enn auðveldara er að tala fyrir frjálslyndi án þess þó að vera sérstaklega frjálslyndur í verki.“
Þá sagði Áslaug Arna að þeir sem töluðu fyrir því að hækka skatta og auka umsvif hins opinbera gætu ekki skreytt sig með frjálslyndisfjöðrum.
„Frasinn um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum er ekki jafn innihaldsríkur og hann er langur. Eru það almannahagsmunir að hækka skatta á tilteknar atvinnugreinar ef ske kynni að þeim gengi vel?“ Þá sagði Áslaug Arna á öðrum stað: „Með einföldum hætti mætti skipta stjórnmálaviðhorfum upp í tvennt; annars vegar þá sem vilja háa skatta og aukin umsvif hins opinbera og hins vegar þá sem vilja lækka skatta og minnka umsvif hins opinbera. […] Og þá kemur líka í ljós hverjir hafa talað í innantómum frösum án nokkurrar innistæðu.“
Þorgerður Katrín svaraði svo skrifum Áslaugar Örnu á Eyjunni og sagði að vel gæti verið að Sjálfstæðisflokkurinn væri í hefndarhug gegn Viðreisn vegna stuðnings Viðreisnar við vantrauststilögu gegn Sigríði Andersen. Mikill hiti var vegna málsins en Sigríður Andersen sagði í pontu Alþingis að það yrði í minnum haft hvernig þingmenn myndu greiða atkvæði. Þorgerður sagði:
„ … en við erum líka að segja hluti sem rugga bátnum. Ég ræddi það ítarlega í ræðu minni á landsfundi og við munum ekkert hætta að tala um það. Það er greinilegt að ekki öllum líkar það, en við munum halda ótrauð áfram að tala um þessi mál. […] Veistu ég ber virðingu fyrir Áslaugu Örnu og hef alltaf gert. Það er landsfundur framundan hjá þeim og þá þurfa menn að brýna sig. En ég óska Áslaugu alls hins besta og Sjálfstæðisflokkurinn er heppinn að hafa manneskju eins og hana innan sinna raða.“