Sósíalistaflokkur Íslands ætlar að bjóða fram lista í borgarstjórnarkosningunum í vor, flokkurinn er einnig að skoða möguleika á að bjóða fram í öðrum sveitarfélögum. Þetta var ákveðið á fundi flokksins í Rúgbrauðsgerðinni um helgina.
Gunnar Smári Egilsson foringi sósíalista sagði í samtali við RÚV að hann ætti von á því að kosningabaráttan verði „stutt og snörp“. Nú verður farið í undirbúningsvinnu og gera má ráð fyrir að listi sósíalista í Reykjavík verði tilbúinn fyrir lok mars. Fram kemur í ályktun fundarins um helgina að framboðið sé eðlilegt framhald af kröfu um endurreisn verkalýðshreyfingarinnar. „Reykjavíkurborg rekur blóðuga láglaunastefnu gegn launafólki sínu, ber mikla sök á húsnæðiskreppunni sem grefur undan lífskjörum launafólks og hefur ýtt undir uppbyggingu húsnæðisbrasks, leigufyrirtækja og völd verktaka sem hafa stórgrætt á húsnæðisvanda hinna verst settu.“
Þar segir jafnframt: „Fólkið í borginni þarf að rísa upp og endurheimta Reykjavíkurborg, krefjast þess að sveitarfélagið þeirra þjóni hagsmunum fjöldans en ekki hinum fáu, ríku og voldugu.“