Í viðtalinu segir Bára að hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en síðar að þingmennirnir voru að tala um Freyju.
„Þegar ég sá þetta í DV og áttaði mig á þessu þá fór ég í ofboðslegt tilfinningauppnám, fyrst og fremst yfir því að Freyja þyrfti enn og aftur að sitja undir þessu. Þessi selslíking er svo rætin og ljót.“
DV skýrði frá því 29. nóvember að einhver þingmannanna hefði gefið frá sér undarlegt hljóð sem virtist líkjast selshljóði. Sigmundur Davíð hefur vísað þessu á bug og sagt að hljóðið hafi ekki komið frá manneskju. Í símtali við Freyju sagði hann að hljóðið hlyti að hafa verið stóll að hreyfast. Fréttamaður Stöðvar 2 fór á vettvang en reyndist ómögulegt að framkalla samskonar hljóð og heyrðist á upptökunni. Í kjölfarið breyttist skýring Sigmundar yfir í að hljóðið hlyti að hafa komið frá bíl sem var að hemla fyrir utan Klaustur.
„Ég heyrði þetta hljóð og kipptist við. Það er alveg ljóst að þetta hljóð var framkallað innanhúss og það kom úr þeirra átt. Ef þetta var reiðhjól eða bíll að bremsa, þá hlýtur reiðhjólið eða bíllinn að hafa verið inni í herberginu, inni á Klaustri Bar. En ég sá engan bíl og ekkert hjól.“
Segir Bára í Stundinni.