DV hefur birt upptökur af þessum samræðum þingmannanna og hafa þær vakið mikla athygli og reiði í þjóðfélaginu. Viðtal er við Önnu í Morgunblaðinu í dag þar sem hún segist ekki ætla að segja af sér. Hún segist gera sér grein fyrir að hún lét þessar umræður viðgangast en átti sig jafnframt á að það hafi ekki verið á hennar ábyrgð að stöðva drukkna menn í að ræða saman.
„Ég hefði átt að fara fyrr en ég gerði. Það eru alveg ótrúlega mörg „Ég hefði“.
Segir Anna meðal annars.
Hún segir að þegar hún hafi komið á Klaustur hafi henni verið boðinn stór bjór og hún hafi drukkið hann og einn lítinn til viðbótar. Hún hafi drukkið þá á löngum tíma og hafi ekki verið drukkin eins og haldið hefur verið fram í umfjöllun um málið. Hún sagðist hafa verið fyrsti þingmaður Miðflokksins sem yfirgaf staðinn og þegar út var komið hafi hún sagt við Ólaf Ísleifsson að þetta hafi verið of mikið en þar hafi hún átt við ákafann í mörgum viðstaddra.
„Ég upplifði þetta þannig að ég hafi ítrekað reynt að skipta um umræðuefni, án árangurs.“
Er haft eftir Önnu sem segist aldrei hafa grátið jafnmikið á ævinni og undanfarna daga og hafi meðal annars brostið í grát á fundi þingflokksformanna í gær.
„En ég er hætt að vera hrædd við að gráta. Það er alltaf ætlast til þess að fólk fari allt á hnefanum og sýni hvorki tilfinningar né veikleikamerki. Af hverju má ekki sýna tilfinningar?“