Maður í Vestmannaeyjum er grunaður um kynferðisbrot í lok nóvember og hefur hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og farbann til 30. janúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um verkefni undanfarnar vikur. Ekki er nánari upplýsingar að hafa um málið.
Um önnur verkefni lögreglunnar í Vestamannaeyjum undanfarið segir í tilkynningunni:
„Að morgni jóladags var tilkynnt um innbrot í verslun 66 °N við Miðstræti þar sem úlpum var stolið. Sá sem þarna var að verki náðist fljótlega og var vistaður í fangageymslu á meðan á frumrannsókn málsins stóð. Málið er í rannsókn.
Fjögur fíkniefnamál hafa komið upp á undanförnum vikum og er í tveimur tilvikum grunur um dreifingu og sölu á fíkniefnum enda um talsvert magn að ræða.
Á undanförnum vikum hafa þrír ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur og þrír vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Áramót nálgast og vill lögregla beina því til fólks að fara varlega með skotelda og þá er athygli sérstaklega vakin á því að óæskilegt er að skjóta upp neyðarblysum eða sólum vegna eldhættu og misvísandi boðum til björgunaraðila. Útrunnum neyðarblysum skal skila til eyðingar.
Að endingu óskar lögreglan bæjarbúum og öðrum landsmönnum gleðilegs nýs árs með von um að nýja árið verið farsælt.“