Bræðurnir sem lentu í bílslysinu við Núpsvötn ásamt fjölskyldum sínum heita Shreeraj og Supreme Laturia.
Eiginkonur bræðranna, Rajshree og Khushboo, létust báðar í slysinu auk hinnar 10 mánaða gömlu Shreeprabha. Fram hefur komið að litla barnið var ekki í bílbelti. Öll fjögur eru breskir ríkisborgarar sem eiga ættir sínar að rekja til Indlands. Að auki slasaðist níu ára gömul dóttir Shreeraj og Rajshree í slysinu og sonur Supreme og Khushboo sem er á áttunda aldursári.
Hjónin Shreeraj og Rajshree voru á lista áhrifamestu Bretanna af asískum uppruna árið 2015 vegna starfa sinna á fjármálamarkaði og umfangsmiklu góðgerðastarfi. Fram kemur að Shreeraj var farsæll sjóðstjóri hjá RBC Capital Markets. Bróðirinn, Supreme, starfar einnig við fjárfestingabankastarfsemi. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Daily Mail um slysið.
Fjölskyldurnar komu til Íslands í fjögurra daga jólafrí og leigðu sér sjö manna Toyota Land Cruiser til þess að ferðast um Suðurlandið. Það ferðalag endaði með skelfilegum hætti þegar bifreiðin virðist hafa snúist á brúnni yfir Núpsvötn. Afleiðingarnar voru þær að bíllinn fór upp á vegrið brúarinnar, hægra megin, rann eftir því nokkra vegalengd og fór síðan út af brúnni. Þaðan féll bíllinn niður á áraurana fyrir neðan brúnna.