fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
Fréttir

Sanddæling úr Landeyjahöfn hefur kostað yfir 2,6 milljarða

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Föstudaginn 21. desember 2018 13:30

Landeyjarhöfn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska ríkið hefur þurft að greiða rúma 2,6 milljarða eingöngu fyrir sanddælingu úr Landeyjahöfn frá opnun hafnarinnar í júlí 2010. Það gera rúmlega 300 milljónir á hverju ári. Þá hafa ýmsar rannsóknir við höfnina kostað 277 milljónir króna. Samandregið er heildarkostnaður vegna byggingar og rekstrar Landeyjahafnar, ásamt kostnaði við rekstur Herjólfs, rúmlega 11 milljarðar króna.

Ein aðalforsendan fyrir byggingu Landeyjahafnar á sínum tíma var að ný ferja, sem hentaði betur við þessar aðstæður, yrði smíðuð. Útboð fyrir byggingu ferjunnar tafðist og var að endingu ekki auglýst fyrr en árið 2016. Kostnaður á hönnun þeirrar ferju var síðan 147 milljónir króna. Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaður við smíði nýs Herjólfs séu um 3,8 milljarðar króna. Það verð mun þó eflaust hækka því gera þarf ýmsar breytingar á ferjunni.

Gert er ráð fyrir að smíði nýrrar ferju ljúki í mars á næsta ári og siglingar hefjist stuttu síðar. Upprunalega átti að afhenda skipið á þessu ári en áðurnefndar breytingar urðu til þess að smíðin tafðist. Nýja ferjan verður með mun meiri burðargetu en gamla skipið og verður að auki rafknúin að hluta. Samningur hefur verið gerður á milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um að bærinn sjái alfarið um rekstur ferjunnar fyrstu tvö árin. Áætlað er að ferðum á mill Eyja og lands muni fjölga um sex hundruð ferðir árlega. Um mikla samgöngubót verður því að ræða fyrir Eyjamenn þó að kostnaður sé hár. Gert er ráð fyrir að afsláttur á miðum í ferjuna muni hækka úr 40% í 50%. Þá mun störfum einnig fjölga vegna fleiri ferða. Gamli Herjólfur verður svo til taks sem varaskip ef eitthvað kemur upp á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt