Mörg fyrirtæki og stofnanir hér á landi hafa gefið starfsmönnum sínum jólagjafir, nú þegar aðeins nokkrir dagar eru til jóla. Líkt og vanalega er gjafirnar misveglegar en eins og allir vita er það hugurinn sem gildir. DV hefur tekið saman upplýsingar frá starfsmönnum nokkurra fyrirtækja um jólagjafir til þeirra. Um er að ræða lauslega samantekt og er úttektin hvergi nærri tæmandi. Hvetjum við lesendur til að láta okkur vita hér að neðan hvað þeir fengu í gjöf frá sínum vinnustað.
Starfsmenn Frjálsrar fjölmiðlunnar, sem gefur út DV, fengu matarkörfu að gjöf. Karfan innihélt lambalæri, osta, ýmiskonar álegg og súkkulaði.
Starfmenn Landsbankans fengu gjafabréf í Líf og List að andvirði 50 þúsund króna auk 10 þúsund króna gjafabréfs frá starfsmannafélaginu. Starfsmenn Lánasjóðs íslenskra námsmanna fengu heldur lakari gjöf en þeir fengu rauðvínsflösku og 15 þúsund króna gjafakort.
Gjafakort Landsbankans virðist nokkuð algeng gjöf en starfsmenn í fullu starfi hjá Bláa lóninu fengu 50 þúsund króna gjafakort frá bankanum. Hlutastarfsmenn fengu 25 þúsund króna gjafabréf. Þá fengu starfsmenn vörur merktar Bláa lóninu og konfekt. Starfsmenn Birgisson fengu sömuleiðis gjafakort frá Landsbankanum en hjá þeim var andvirði þess 40 þúsund krónur.
Starfsmenn Origo fengu nýja týpu af Bose hátölurum sem hægt var að skipta í inneign í Origo búðinni eða inneign hjá 66° norður. Hátalarinn sem um ræðir kostar 64.900 krónur á heimasíðu Origo. Þeir sem vinna hjá Árvakri, útgefanda Morgunblaðsins, fengu 30 þúsund króna gjafabréf hjá 66° norður. Starfsmenn á Hrafnistu fengu sömuleiðis gjafabréf í Kringluna og 66°norður, en upphæðin fór eftir vinnuhlutfalli. Starfsmenn Heimkaupa fengu 25 þúsund króna inneign hjá fyrirtækinu og Birgisson 40 þúsund króna gjafakort frá Landsbankanum.
Starfsmenn Marels fengu 50 þúsund króna gjafakort í Kringlunni. Advania gaf starfsmönnum sínum skurðarbretti, svuntu og kokkahníf. Reykjavíkurborg gaf svo gjafabréf fyrir tvo í Borgarleikhúsið. Samkvæmt heimildum gaf Landspítalinn 8.500 króna inneign hjá Icewear. Starfsmenn Sagafilm fengu svo óefnislega eign, einn frídag.
Starfsmenn Háskóla Íslands gaf tvo frídaga og miða fyrir tvo í Þjóðleikhúsið. Húsasmiðjan gaf val um 12 þúsund króna gjafakort eða kjötpakka. Starfsmenn Póstsins fengu lambalæri, hamborgarhrygg, kindavöðva og konfekt.
Icelandair gaf svínahamborgarhrygg rúmlega 2 kg, 2 stykki andabringur, konfekt, Gouda ostinn „sterkur,“ Húskarla hangikjöt 2 bréf, Múmín bolla, servíettur og 6000 króna gjafakort sem hægt er að nota sem greiðslu upp í nótt á hótelum Icelandair eða í brunch á Vox.
Starfsmenn Domino’s sem vinna í búðum fyrirtækisins fá að velja á milli Bluetooth heyrnatóla eða Bluetooth hátalara, sem er á verðmæti 1.500 krónur samkvæmt Alibaba.com. Á meðan fá skrifstofustarfsmenn Domino’s rúmlega 50.000-80.000 króna gjafabréf frá Arion banka og eitthvað fleira að auki.
Costco gaf starfsmönnum sínum 3.500 króna inneign í Costco, sem rennur út 31. janúar 2019.
Skeljungur gaf 70 þúsund króna inneign hjá Heimkaup og kaffipakka.
Garðabær gefur starfsfólki sínu (þeim sem vinna sem starfsmenn á sambýli að minnsta kosti) 2.500 krónur upp í jólahlaðborð – óháð starfshlutfalli.
Alcoa fjarðaál gaf eins og venjulega gjafakassa sem innihélt: hamborgarhrygg, hangikjöt, nokkra osta, kæfu, Nóa konfekt, lax, sultu og þvottapoka og bolla frá Sveinbjörgu.
Marel gaf 50 þúsund króna gjafakort í Kringluna ásamt tveimur dögum í frí. Að meðaltali má áætla að þessir tveir dagar gefi hverjum starfsmanni á bilinu 40-60 þúsund krónur í vasann eftir skatt. Kostnaður fyrirtækisins er því töluvert meiri með launatengdum gjöldum. Óhætt er því að segja að meðaltals nettóvirði jólagjafarinnar í ár sé um 100 þúsund króna virði fyrir hvern starfsmann.
Samkaup gefur starfsfólki í verslunum Celabration sælgætiskassa eða gjafakort í Samkaup að fjárhæð 10, 20 eða 30 þúsund krónum, upphæðin fer eftir lengd starfsaldurs og starfshlutfalli. Starfsfólk á skrifstofu fyrirtækisins fær svipaða upphæð eða ívíð hærri.
Gæðastál ehf. gefur hamborgarhrygg, hangikjöt, andabringu, Nóa konfekt, osta, inneign í Smáralind fyrir 10.000 kr. og auka frídag.
Leiðrétt: Við greindum frá því í gær að starfsmenn Brimborgar hefðu fengið að velja á milli vínflösku og konfektkassa. Þetta ku vera rangt þar sem ekki er búið að afhenda starfsfólki jólagjafir. Leiðréttist það hér með.