Fimm barna móðir hefur fengið umsjón yfir börnum sínum eftir að þau voru tekin frá henni af yfirvöldum Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðarbæjar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flosa H. Sigurðssyni, lögmanni hennar.
Móðirin, sem er af afgönskum uppruna, var handtekin í nóvember síðastliðinn vegna gruns um að hún væri ekki blóðmóðir barnanna. Þá voru börnin tekin frá henni og flutt í vist hjá fósturforeldrum.
Konan hyggst senda kvörtun til Persónuverndar að sögn Flosa á þeim forsendum að persónuupplýsingar um hana hafi verið veittar fréttamiðlinum Vísi. Mun hún jafnframt fara fram á miskabætur gegn þeim einstaklingum sem áttu aðild í því máli.
Einnig þykir líklegt að konan muni senda kvörtun til Barnaverndarnefndar vegna útfærslu þeirra í málinu.
Skúli Jónsson yfirlögregluþjónn staðfestir í samtali við RÚV að engar efasemdir séu um hvort börnin séu hennar eða ekki, en þau voru send aftur til móður sinnar í byrjun desembermánaðar.