Morgunblaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, að Öræfajökull sé í gjörgæslu. Haft er eftir henni að sífellt fullkomnari mælitæki séu notuð til að vakta landið og sérfræðingar í náttúruvá séu á vakt allan sólarhringinn auk veðurfræðinga. Fylgst sé með jarðskjálftum, eldfjöllum, rennsli í ám og vötnum og snjóflóðahættu.
Haft er eftir Kristínu að skjálfti upp á 3,15 í Grímsvötnum þann 23. nóvember hafi sett vísindamenn í stellingar því skjálftar af þessum styrkleika hafi ekki komið nema í aðdraganda eldgosa. Þetta hafi verið ágæt áminning um að gos geti brotist fyrirvaralítið út í Grímsvötnum enda sé skammt niður í kvikuhólfið.
30 mælitæki eru nú við Heklu og líða aðeins fimm sekúndur frá skjálfta þar til upplýsingar þar um birtast á skjá á Veðurstofunni. Einnig fara viðvörunarkerfi í gang við ýmsar mismunandi aðstæður eins og ef margir litlir skjálftar verða á stuttum tíma á afmörkuðu svæði. Vonast er til að hægt verði að sjá óróleika í eldfjallinu með lengri fyrirvara en hefur verið hægt til þessa.