Eigendur atvinnuhúsnæðis að Þverholti 18 í Reykjavík hafa höfðað mál gegn Jóhanni Jónasi Ingólfssyni, eiganda Já iðnaðarmanna, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í þeim tilgangi að fá Jóhann borinn út úr fasteigninni. Jóhann hefur leigt húsið undanfarið undir skrifstofu Já iðnaðarmanna en fram kemur að leigusamningnum hafi verið rift vegna vanefnda. DV hefur fjallað um tvö gjaldþrot rekstrarfélaga Já iðnaðarmanna undanfarin misseri en reksturinn er núna á þriðju kennitölunni. Ekki hefur tekist að birta Jóhanni stefnuna en í Þjóðskrá er hann skráður með óþekkt heimilisfang í Danmörku.
Eigendur umrædds húsnæðis í Þverholti eru hjónin Friðrik Skúlason og Björg Marta Ólafsdóttir í gegnum félagið Friðrik Skúlason ehf. Fasteignin er rúmlega 1.000 fermetrar að stærð, rúmlega 600 fermetra skrifstofurými og 400 fermetra bílakjallari. Skrifað var undir leigusamningin við Jóhann í júlí 2017 og var leiguverðið 1.650.000 krónur mánuði. Fasteignin var þó aðeins að litlu leyti notuð sem skrifstofa félagsins, þar gistu einnig erlendir verkamenn sem komu til starfa hjá Já iðnaðarmönnum. DV fjallaði um alvarlega uppákomu í húsnæðinu í júlí í sumar en þá dró egypskur hælisleitandi upp hníf í húsnæðinu í kjölfar þess að hann taldi sig vera svikinn um laun. Var sérsveit lögreglu kölluð til og handtók manninn.
Afbrotaferill Jóhanns er langur. Hann var fyrst dæmdur fyrir þjófnað árið 1975 og hefur hlotið á þriðja tug dóma fyrir margs konar brot, meðal annars nauðgun og fíkniefnainnflutning.