„Samtök íþróttafréttamanna leggja ríka áherslu á að íþróttafréttamenn geti sinnt störfum sínum án þess að verða beittir ofbeldi eða sæta óeðlilegri áreitni af nokkru tagi. Samtökin fordæma því hvers kyns ofbeldi og skora á félagsmenn að leggja sitt af mörkum við að tryggja öruggt starfsumhverfi.“
Svona hljómar yfirlýsing sem Samtök íþróttafréttamanna sendu frá sér í dag sem snýr að fjölmiðlamanninum Hirti Hjartarsyni.
Atvikið sem um ræðir átti sér stað í sumar þegar hann var staddur á HM í Rússlandi. Mætti hann þá ölvaður á blaðamannafund landsliðsins og þá lagði RÚV fram kvörtun á hendur honum fyrir að hafa áreitt Eddu Sif Pálsdóttur íþróttafréttamann.
Hjörtur var í kjölfarið sendur heim af yfirmönnum sínum hjá Vodafone en hann var á vegum útvarpsstöðvarinnar X-ins 977. Hjörtur er með vinsælustu útvarpsmönnum landsins og stýrir þættinum Akraborgin.
Heimildir herma að Edda Sif hafi kært Hjört fyrir líkamsárás árið 2012, en þau náð samkomulagi þar sem hann viðurkenndi fulla ábyrgð og fór málið því ekki fyrir dóm.
Í yfirlýsingunni segir einnig að stjórn SÍ harmi að hafa ekki fjallað um málið fyrr en nú og biðst afsökunar vegna þess, hálfu ári síðar.