Þann 2. desember síðastliðinn birti Lögreglustjórinn á Suðurnesjum uppstillta mynd af fjórum bílum og bílstjórum þeirra. Við myndina stóð „Hver ekur þér heim yfir hátíðarnar?“ og er hún liður í stórhertu eftirliti lögreglunnar með ölvunarakstri. Sams konar auglýsingar hafa verið gerðar hjá öðrum lögregluembættum og hjá lögreglu í öðrum löndum, til dæmis Danmörku. Með auglýsingunni stendur:
„Lögreglan á Suðurnesjum mun efla eftirlit með ölvunarakstri í desember og janúar og þá sérstaklega um helgar, en markmiðið verður að fækka og koma í veg fyrir ölvunarakstursbrot, en því miður þá eiga þau til að færast í aukana þessa mánuði. Talsvert er um bæði jólahlaðborð og jólaglögg og við hvetjum alla þá sem ætla sér að fara á jólahlaðborð eða slíka skemmtun yfir jólin að skilja bílinn eftir heima.
Endum ekki jólagleðina með ölvunarakstri…“
Á myndinni má sjá leigubílstjóra, lögreglumenn, sjúkraflutningamenn og útfararstjóra. Svo óheppilega vildi til að útfararstjórinn, Richard Woodhead, var sviptur ökuréttindum í heilt ár. DV hafði samband við Richard sem greindi frá því að hann hefði fengið ökuréttindin aftur í maí síðastliðnum en kannaðist ekki við að hafa setið fyrir í auglýsingu.
„Þetta er einhver vitleysa, ég hef ekki séð þessa auglýsingu,“ sagði Woodhead þegar hann var spurður hvort honum fyndist ekki skrýtið að hafa verið beðinn um að sitja fyrir í auglýsingunni í ljósi þess að hafa verið sviptur ökuréttindum. Myndin var tekin fyrir nokkru og hann er ekki lengur starfandi sem útfararstjóri. Er því um endurbirtingu að ræða.
Myndin var einnig birt á sama degi árið 2017. Á þeim tíma var Woodhead ekki með ökuréttindi.
Gunnar Schram hjá Lögreglunni á Suðurnesjum segir að málið verið skoðað:
„Það má vera að þetta sé óheppilegt en væntanlega hefur þetta verið sett inn með réttum tilgangi og hugsun. Ég held að það hafi allir skilið boðskapinn.“