fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

„Án Frú Ragnheiðar væri ég örugglega dáinn“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 14. desember 2018 12:15

Frú Ragnheiðar bíllinn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum að gefa þeim sem nota vímuefni í æð tækifæri til að taka ábyrgð á vímuefnanotkun sinni. Á síðasta ári förguðum við 2.800 lítrum af notuðum sprautunálum,“ segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar, sem bauð blaðamanni í heimsókn í höfuðstöðvar verkefnisins, Rauða krossinn, þar sem hún og Jenni ræddu við blaðamann um verkefnið. Jenni er dulnefni 22 ára skjólstæðings Frú Ragnheiðar, því öllum sem til þeirra leita er heitið 100 prósent trúnaði og nafnleynd og það heit verður ekki rofið.

Svala Jóhannesdóttir verkefnastýra Frú Ragnheiðar

Heilbrigðisþjónusta á hjólum og meira

Frú Ragnheiður keyrir um höfuðborgarsvæðið, alla daga vikunnar nema laugardaga, frá klukkan 18 til 22. Þjónustunni hefur verið lýst sem tvíþættri, nálaskiptiþjónustu og heilbrigðisþjónustu, en í raun er þjónustan mun víðtækari.

Markmið Frú Ragnheiðar er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, þá einkum einstaklinga sem eru heimilislausir og einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Í sérinnréttuðum bílnum kennir ýmissa grasa. Þar má meðal annars finna hrein áhöld til vímuefnanotkunar, vatnsbrúsa, mat, hlý föt, tjöld, svefnpoka og búnað til að nota við heilbrigðisþjónustu. Þrír sjálfboðaliðar standa vaktina hverju sinni og jafnframt er læknir á bakvakt þeim innan handar, hjá þeim geta skjólstæðingar meðal annars fengið almenna heilbrigðisþjónustu, sálrænan stuðning og ráðgjöf.

Meðan á vaktinni stendur geta skjólstæðingar hringt og bíllinn kemur til þeirra. Einstaklingar innan jaðarsettra hópa eiga oft erfitt með að sækja sér heilbrigðisþjónustu og annað á hefðbundnum opnunartíma eða treysta sér ekki til að nýta sér þá þjónustu af ótta við að mæta fordómum og skilningsleysi.

„Stundum er líka gott að geta hringt og fengið bílinn til að koma, jafnvel þó að maður fái sér bara súkkulaði, kókómjólk og smá spjall,“ segir Jenni.

Verkefnið Frú Ragnheiður miðar þjónustu sína að skjólstæðingunum og þeirra þörfum. Þeim hentar betur að sækja sér þjónustu á kvöldin, svo vaktin er höfð á kvöldin, þeir hafa oft mætt fordómum og upplifað útskúfun úr samfélaginu, en ekki hjá Frú Ragnheiði.

Ef skjólstæðingar þurfa aðstoð sem ekki er hægt að veita á vaktinni þá geta þeir fengið þjónustu yfir daginn.

„Það er mikilvægt að þau hafi stað þar sem jaðarsettir einstaklingar geta fengið fræðslu, sagt og spurt um hvað sem er, án þess að eiga á hættu að finna fyrir fordómum. Frú Ragnheiður er öruggt rými.“

Starfsemin utan bílsins

Svala verkefnastýra sinnir skjólstæðingum yfir daginn. Þeir skjólstæðingar hafa kannski beðið um hjálp við að komast í meðferð, aðstoð til að fá áfallahjálp, nálaskiptaþjónustu utan hefðbundnu vaktarinnar, og stundum þurfa þeir bara einhvern sem er tilbúinn að hlusta.

„Í dag til dæmis fór ég með einum í viðtal hjá Von, en hann er að reyna að komast í meðferð hjá SÁÁ. Ég fór og sótti hann, kom með hann hingað [í húsnæði Rauða krossins] og gaf honum að borða fyrir viðtalið því hann var mjög svangur. Ég fór síðan í apótek og leysti út sýklalyf fyrir annan, en við bjóðum skjólstæðingum upp á sýklalyf, en við veitum sýklalyfjameðferð í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar varðandi að greiða fyrir lyfin. Ég fór í dag á tvo staði með nálaskiptaþjónustu, annar var í mjög erfiðu fráhvarfi að hann komst ekki út úr húsi og gat því ekki nýtt sér vaktina hjá Frú Ragnheiðar-bílnum. Næst fór ég með Frú Ragnheiðar-bílinn í þrif hjá Löðri, þeir styrkja okkur með þrif.  Í dag var ég líka að leita að tveimur skjólstæðingum okkar, ég sinni sem sagt líka leitarstarfi, einn vantaði lyf vegna lifrarbólgu C og hinn hafði ofskammtað eða reynt að svipta sig lífi í gær.“

Svala hefur því nóg að gera, en hluti af starfi hennar felst í að byggja upp gott meðferðarsamband við skjólstæðingana, sérstaklega þá sem eru hvergi annars staðar í þjónustu. Þeir geta hringt í hana og treyst því að hún hlusti og reyni að aðstoða eftir fremsta megni.

Frú Ragnheiður bjargar lífum

Jenni segir að skjólstæðingar hafi jafnvel fengið aðstoð við samskipti við nákomna. „Frú Ragnheiður hefur líka aðstoðað skjólstæðinga við að koma aftur á samskiptum við fjölskyldu. Það eru ekki allir sem geta hringt í fjölskyldu sína til að sjá til dæmis hvernig yngri systkinum þeirra gengur í skóla og frístundum.“

Jenni á erfiða reynslu að baki. Hann hefur nýtt nálaskiptaþjónustu Frú Ragnheiðar í rúmt ár þótt hann hafi aðeins verið barn þegar hann komst fyrst í návígi við vímuefni sem er sprautað í æð. Hann segir að verkefnið hafi bætt hreinlæti í vímuefnanotkun mikið.

„Það er allt miklu hreinna. Þegar ég var yngri var ég innan um fólk í neyslu og þá var algeng sjón að nálar væru notaðar svo oft að mælieiningarnar og merkingar á hliðunum höfðu máðst af. Núna er þetta allt öðruvísi. Ég hef til dæmis bara svona þrisvar fjórum sinnum þurft að nota sömu nálina tvisvar sinnum og þá geri ég það bara á sjálfum mér.

Án Frú Ragnheiðar er ég viss um að mikið meira væri um bæði lifrarbólgu og HIV í samfélaginu.“

Jenna finnst starfsemi Frú Ragnheiðar afar mikilvæg fyrir samfélagið og það heyrist glöggt að verkefnið hefur reynst honum ákaflega mikilvægt.

„Mér finnst Frú Ragnheiður og Svala eyða öllum deginum í að hjálpa mér, samt eru þau líka að aðstoða marga vini mína og svo náttúrlega líka fjölda einstaklinga sem ég þekki ekki einu sinni. Hvernig er það hægt?

Mér þætti rétt að það yrði tekinn annar bíll í notkun, þá gætu þau sinnt fleirum, en það er kannski svolítið mismunandi hversu margir eru að nýta sér þjónustuna á hverjum tíma. Svo finnst mér að  Svala ætti að fá medalíu, hún er svo æðisleg, án hennar og Frú Ragnheiðar væri ég alveg pottþétt dáinn.“

Skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eru alls konar. Þeir koma úr öllum stéttum samfélagsins, öllum stigum menntunar og á öllum aldri. Þau eiga það sameiginlegt að lífið hefur verið þeim erfitt og eiga þau oft mikla áfallasögu að baki. Eins og flestir einstaklingar, vilja þau mæta skilningi og samkennd. Það fá þau hjá Frú Ragnheiði.

Í Frú Ragnheiði er hægt að fá hreinan búnað til vímuefnanotkunar

Legðu verkefninu lið

Í dag er nóg að gera á vaktinni hjá Frú Ragnheiði og starfsemin hefur aukist að umfangi ár frá ári. Því er mikilvægt að verkefnið hafi nægt fjármagn til að halda sínu góða starfi áfram og geta hjálpað einstaklingum á borð við Jenna, en opinberir styrkir sem verkefnið hefur hlotið nægja ekki og þarf Rauði krossinn að borga með verkefninu. Styrkir námu um 10 milljónum á árinu á meðan starfsemin kemur til með að kosta um 19 milljónir.

Sjö fræknir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, í samstarfi við Frú Laufey-félag um skaðaminnkun, ætla að róa á róðrarvél stanslaust í heila viku til að afla fjár fyrir Frú Ragnheiði. Fénu verður meðal annars varið til tækjakaupa, kaupa á  hjúkrunarvörum og sýklalyfjum. Hægt er leggja söfnuninni lið með því að:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ísland öruggasti áfangastaðurinn fyrir árið 2025

Ísland öruggasti áfangastaðurinn fyrir árið 2025
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum
Fréttir
Í gær

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“
Fréttir
Í gær

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni
Fréttir
Í gær

Egill neitar að fjalla um bók Björns í Kiljunni – „Það er einkennileg ákvörðun“

Egill neitar að fjalla um bók Björns í Kiljunni – „Það er einkennileg ákvörðun“
Fréttir
Í gær

Ferðamenn lýsa því sem er ódýrt á Íslandi – „Oreo og Capri Sonne er fáránlega ódýrt“

Ferðamenn lýsa því sem er ódýrt á Íslandi – „Oreo og Capri Sonne er fáránlega ódýrt“