Hvammstangabúar voru minntir heldur hressilega á mikilvægi reykskynjara og slökkvitækja síðastliðinn þriðjudag þegar eldur kviknaði í húsi við Höfðabraut á Hvammstanga. Trölli.is greindi frá.
Eldurinn kom upp á neðri hæð hússins og er talið að hann hafi kviknað út frá rafmagni í bílskúr.
Ungt par býr í húsinu með lítið barn og þykir mikil mildi að fólkið var heima þegar eldurinn kviknaði, en aðeins mátti muna mínútum að húsið yrði alelda. Svo varð þó ekki og tókst slökkviliði að ráða niðurlögum eldsins. Engan sakaði.
„Ég minni fólk á það að spara ekki í reykskynjurunum og slökkvitækjum,“ segir Elísabet Eir Steinbjörnsdóttir, sem bjó í húsinu ásamt fjölskyldu sinni.
Reykskynjarar seldust upp á augabragði á Hvammstanga eftir atvikið.