VR, stærsta stéttarfélag landsins, gefur ekki upp hvað umtalaðar auglýsingar félagsins með Jóni Gnarr, leikara og fyrrverandi borgarstjóra, í hlutverki Georgs Bjarnfreðarsonar kostuðu.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og þar er haft eftir Stefáni Sveinbjörnssyni, framkvæmdastjóra VR, að félagið gefi ekki upp kostnaðartölur við verkefni sem þessi.
Eins og komið hefur fram fer Jón Gnarr á kostum í nýjum auglýsingum fyrir VR, en þar bregður hann sér aftur í gervi Georgs Bjarnfreðarsonar, sem hann gerði að þjóðþekktri persónu í Vaktar þáttaröðunum.
Í fyrstu auglýsingunni er Georg yfirmaður og væntanlega eigandi verslunarinnar Georgskjör, er ung stúlka mætir til hans í atvinnuviðtal.
Markmið VR með auglýsingunum er að vekja athygli á kjörum félagsmanna og Georg er ágætis viðmið um hvernig ekki á að gera hlutina. Auglýsingar verða alls fimm talsins.
Í Fréttablaðinu er bent á að semja hafi þurft um höfundaréttarmál við Ragnar Bragason, leikstjóra og skapara Vaktaseríanna, og Jón Gnarr sjálfan. En VR gefur ekki upp kostnaðinn.
„Auglýsingastofa okkar, Hvíta húsið, sá um gerð auglýsingarinnar og samninga við þá Ragnar Bragason og Jón Gnarr,“ segir Stefán við Fréttablaðið.