„Barnið mitt er ekkert verra en ykkar börn og hún á að fá þá þjónustu sem henni ber.“ Þetta ritar Sif Sigurðardóttir í opnu bréfi til íbúa Norðlingaholts en Sif er móðir 17 ára stúlku sem hefur undanfarin þrjú ár háð erfiða baráttu við fíknisjúkdóm auk þess sem hún er greind með kvíða, þunglyndi og geðhvörf.
DV greindi fyrst frá því í apríl síðastliðnum að mikil óánægja væri á meðal sumra íbúa í Norðlingaholti vegna fyrirhugaðs vistheimilis í hverfinu fyrir börn sem glíma við alvarlegan fíknivanda.Íbúi í hverfinu sem DV ræddi við lét þessi orð falla: „Foreldrar þessara barna treysta sér ekki til þess að hafa þau heima hjá sér, af hverju á ég að treysta þeim í grennd við mín börn?“
Íbúasamtök Norðlingaholts sendu frá sér yfirlýsingu þar sem meðal annars kom fram:
„Sérstaklega eru íbúðar uggandi yfir því að í 100 metrum frá húsinu er opinn leikskóli í Björnslundi. Norðlingaholtið er heilsueflandi hverfi og rólegt þar sem fjölskyldur hafa flutt í til að eiga ró og næði eftir amstur dagsins. Klárt mál er að finna þarf viðeigandi úrræði fyrir ungmenni sem glíma eða hafa glímt við alvarlegan og fjölþættan fíkniefnavanda. Hins vegar á starfsemi sem þessi ekki heima í hverfi eins og þessu frekar en öðru íbúasvæði.“
Vistheimilið hóf starfsemi í Þingvaði um miðjan október síðastliðinn og var ætlunin að vista þar tvö til þrjú ungmenni í senn. Heimilið var hugsað fyrir ungmenni sem hafa verið í vímuefnaneyslu og þurfa aðlögun og stuðning eftir meðferð
Íbúðasamtök Norðlingaholts semog íbúar í nágrenni hússinss lögðu í kjölfarið fram lögbannskröfu á starfsemina sem sýslumaður hefur nú samþykkt.Rétt er að taka fram að íbúar í Norðlingaholti sendu frá sér fréttatilkynningu 7. Desember síðastliðinn þar sem tekið var fram að lögbannið á fyrirhugað vistheimili væri ekki í þeirra nafni.
Sif Sigurðardóttir hefur undanfarin misseri barist fyrir því að dóttir hennar fái viðeigandi aðstoð og hjálp og hefur talað opinberlega um það úrræðaleysi sem mætir ungmennum með tvíþættan vanda.
Í kjölfar fregna um ofangreinda lögbannskröfu ritaði Sif opið bréf til þeirra íbúa í Norðlingaholti sem hafa sett sig upp á móti rekstri vistheimilis í hverfinu. Þar lýsti hún því hvernig málið blasir við henni, sem móðir fíkils sem berst fyrir því að fá bót meina sinna og þarf á sama tíma að takast á við fordóma samfélagsins.
„Barnið mitt er ekkert verra en ykkar börn og hún á að fá þá þjónustu sem henni ber, alveg eins og öll önnur börn sem greinast með sjúkdóm hvort sem þar er kvef eða krabbamein. Dóttir mín er dásamleg stelpa og þið íbúar Norðlingaholts þurfið alls ekki að vera hrædd við hana ef hún þyrfti á þessu úrræði að halda. Hún mun ekki skaða ykkur eða ykkar börn, hún er ekki hættulegur glæpamaður, hún er bara 17 ára gömul, með hjarta úr gulli, stendur sig vel í skóla og í vinnu, ber umhyggju fyrir náunganum og er sérstaklega barngóð og kurteis.
Hún hefur aldrei komist í kast við lögin, hún hefur aldrei verið handtekin, hún hefur aldrei verið til vandræða, hún hefur ekki svo mikið sem skellt hurð, hún er einstaklega auðveld í daglegum samskiptum.
Dóttir mín glímir við erfiðan sjúkdóm, sjúkdóm sem veldur því að hún þarf á miklum stuðningi að halda eftir meðferð, alveg eins og börn sem fá krabbamein þurfa að fá endurhæfingu eftir að meðferð þeirra lýkur.
Ég kæri mig ekki um að dóttir mín sé talin annars flokks þjóðfélagsþegn sem eigi að útiloka úr samfélaginu vegna þess að hún er með sjúkdóm, eins og þið segið í þessari yfirlýsingu ykkar orðrétt: „Klárt mál er að finna þarf viðeigandi úrræði fyrir ungmenni sem glíma eða hafa glímt við alvarlegan og fjölþættan fíkniefnavanda. Hins vegar á starfsemi sem þessi ekki heima í hverfi eins og þessu frekar en öðru íbúasvæði.“
Ég segi enn og aftur DÓTTIR MÍN ER EKKI ANNARS FLOKKS ÞJÓÐFÉLAGSÞEGN, hún á rétt á að fá viðeigandi aðstoð hvort sem sú aðstoð er í Norðlingaholt eða í Garðabæ. Það er einfaldlega ekki í boði að útiloka hana úr samfélaginu.
Að lokum við ég ítreka það að þið þurfið alls ekki að stimpla hana strax sem eitthvað úrþvætti, stimpla hana sem ónýtan þjóðfélagsþegn sem muni bara hafa vandræði í för með sér, með lögregluna á hælunum, bjóðandi börnum ykkar eiturlyf og valda ykkur ama þegar þið komið heim úr vinnu.
Eins og segir í yfirlýsingu ykkar: „Norðlingaholtið er heilsueflandi hverfi og rólegt þar sem fjölskyldur hafa flutt í til að eiga ró og næði eftir amstur dagsins.“ Það er einmitt það sem mín dóttir þarf, hún þarf ró og næði til að ná BATA og ekki er verra ef hverfið er heilsueflandi.
Ég mæli eindregið með að þið bjóðið þessi börn velkomin í hverfið ykkar, takið dóttir mína til fyrirmyndar og berið umhyggju fyrir náunganum. Vona að þið eigið góðan dag og gleðileg jól.“
„Fordómarnir eru rosalega miklir,“ segir Sif í samtali við blaðamann DV. „Það er eins og það sé verið stimpla alla þessa krakka sem geðveika glæpamenn. Dóttir mín er 14 ára gömul þegar hún leiðist útí fíkniefnaneyslu og hún er þá strax stimpluð sem einhvers konar óalandi óargadýr.“
Sif bendir á að dóttir hennar sé efnilegur og frambærilegur einstaklingur sem eigi að fá sömu tækifæri og aðrir til að blómstra.
„Áður en hún byrjaði í neyslu var hún alltaf rosalega virk og aktíf, alltaf í allskonar jaðaríþróttum. Og alltaf til fyrirmyndar. Hún er með ofboðslega sterka réttlætiskennd. Hún er einfaldlega með sjúkdóm og á rétt á að fá hjálp.“
Dóttir Sifjar er sem stendur í viðeigandi úrræði en það er erfitt að spá fyrir um framtíðina.
„Hún hefur sjálf talað um það hvað henni finnist þetta ósanngjarnt og særandi,“ segir Sif og vísar þar í þær staðalímyndir og fordóma sem ríkja í samfélaginu gagnvart þeim sem glíma við fíkn og geðraskanir. „Við viljum að sjálfsögðu fá þessa krakka út í þjóðfélagið aftur. Markmiðið hlýtur að vera það að þau vinni úr sínum vanda, fái hjálp við að komast út í samfélagið á ný og endi ekki sem einskis nýtir þjóðfélagsþegnar.“