Nokkurt fjölmenni er samankomið á Austurvelli á mótmælafundi sem boðað hefur verið til í kjölfar birtingar úr leyniupptökum frá drykkjusamsæti sex þingmanna á veitingastaðnum Klaustri fyrir tíu dögum. Í samtölum þingmannanna var meðal annars hæðst að konum, samkynhneigðum og fötluðum.
Meðal þeirra sem fluttu ræður voru Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins. Þuríður sagði í ræðu sinni að nú veltu margir öryrkjar því fyrir sér hvort bág staða þeirra væri að hluta til tilkomin vegna fyrirlitningar þingmanna á þeim og vísaði þar til þess hugarfars sem mörgum þykja leyniupptökurnar lýsa.
Ljósmyndari DV var á staðnum og sagði ríflega hálfan Austurvöll vera þakinn fólki og taldi það mikið miðað við að afar kalt er í veðri í dag. Meðfylgjandi myndir eru frá mótmælunum.