„Þessi ummæli og öll þau sem voru viðhöfð á þessum fundi, þau segja bara allt um það fólk sem þar sat og eru þeim sem tóku þátt í þessu til háborinnar skammar.“
Svo mælir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, í samtali við RÚV að loknum fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í gær. Íris var á meðal þeirra sem þingmenn ræddu um á óviðeigandi hátt á Klausturbarnum á dögunum, en eins og mörgum er kunnugt hefur málið valdið miklu fjaðrafoki undanfarna daga.
Sjá einnig: Þingmennirnir voru að tala um Írisi en ekki Áslaugu Örnu – „Hún er helvíti sæt stelpa“
Þegar bæjarstjóri Vestmannaeyja kom til tals á Klausturbarnum sagði Bergþór Ólason meðal annars að hún væri „miklu minna hot í ár heldur en hún var fyrir fjórum árum síðan.“
Hvorki Bergþór né Karl Gauti Hjaltason sátu fund umhverfis- og samgöngunefndar, þegar Íris var gestur nefndarinnar. Þegar Íris er spurð að því hvernig henni hafi fundist að koma á fundinn í ljósi þess að þessir men þurftu að víkja, svarar hún að það hafi ekki verið mikið mál. Einnig segist hún ekki taka ummæli þingmannanna á Klausturbarnum nærri sér.
„Þetta dæmist algjörlega á þessa einstaklinga, og hvernig þeir hafa hagað sér, og ég held að þeir ættu bara aðeins að fara að hlusta á það sem fólk er að segja,“ bætir Íris við. Aðspurð hvort hún hefði fengið afsökunarbeiðni segist Íris ekki hafa heyrt frá neinum sem áttu í hlut á Klausturbar.
Rúmlega þrjú þúsund manns hafa boðað komu sína á Austurvöll í dag, þar sem mótmæla á framkomu þingmannanna.