fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Halldór ósáttur við brottrekstur Ólafs og Karls – Trúnaðarbrestur milli hans og Ingu Sæland

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 1. desember 2018 16:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Gunnarsson, einn stofnenda Flokks fólksins og fyrrverandi sóknarprestur í Holti í Rangárvallasýslu , greiddi atkvæði gegn brottrekstri þingmannanna Ólafs Ísleifssonar og Karls Gauta Hjaltasonar úr flokknum og varði þá af einurð á stjórnarfundi flokksins á föstudag.

Halldór segir að þegar rýnt sé í efni leyniupptakanna frá Klaustri sé ekki að finna nein ummæli frá þeim tveimur sem réttlæti brottrekstur úr flokknum. Halldór, sem var í stjórn flokksins en hefur nú sagt sig úr stjórninni vegna þessara atburða, segir í viðtali við DV:

„Ég var sá sem greiddi atkvæði gegn þessari úrsögn og get ekki annað sagt en ég sé afskaplega hryggur yfir þessari umfjöllun og allri þeirri reiði sem ríkir gagnvart þessum tveimur mönnum. Þegar ég fer yfir þátt þingmanna Flokks fólksins í þessum samræðum þá gat ég ekki heyrt ein einustu ummæli frá þeim sem séu til þess fallin að tilefni væri til brottrekstrar.“

Karl Gauti hefur áður gagnrýnt stjórnunarhætti Ingu

„Karl Gauti er búinn að gagnrýna ákveðna stjórnunarhætti hjá Ingu, formanninum, og það vitum við sem erum í stjórninni um. Þannig að þetta var ekkert óeðlilegt sem hann sagði þarna. Þegar hann gefur síðan yfirlýsingu um að hann vilji styðja Ingu þá er það leið hans til sátta. Í flokki með svona mismunandi einstaklinga eins og Ólafi, Karli Gauta, Guðmundi Inga og Ingu Sæland innanborðs, þá er ósköp eðlilegt að þar sé mismunur á viðhorfum.“

„Ég var einn af stofnendum flokksins og vann að uppbyggingu hans og stefnumótun og vildi ná þessari breidd í forystu flokksins. Ég hef verið afskaplega ánægður með þann árangur sem Flokkur fólksins hefur náð. Ef við lítum til dæmis til þeirra frumvarpa sem Ólafur Ísleifsson hefur lagt fram þá eru það þýðingarmestu þingmálin í dag, sem skipta þjóðina mestu máli. Ásamt þeim málum sem Karl Gauti hefur flutt, þá er þetta til fyrirmyndar.“

Segir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli sín og Ingu Sæland

„Ég gat því miður ekki verið á fyrri fundi sem formaður boðaði til en ég ræddi við hana í síma fyrir hann og hún lofaði mér því að ef það kæmi fram tillaga á fundinum sem ætti að samþykkja þá yrði fundinum frestað – en það var ekki staðið við þetta.“

Á fyrri stjórnarfundinum á fimmtudag var samþykkt ályktun þess efnis að skorað er á Ólaf og Karl að segja af sér þingmennsku. Á fundi á föstudag var síðan samþykkt að reka þá úr flokknum. Halldór segir:

„Þegar ég kom til seinni fundarins þá var búið að taka þessa ákvörðun með samþykkt frá fyrri fundi, þá var ekkert aftur snúið með það. Og þó að ég flytti þá þar vörn sem ég gat, þess efnis að ekki væri ástæða til brottrekstrar og reyndi að rökstyðja mál mitt vel, þá var ekki lengur aftur snúið eftir fyrri ályktun stjórnarinnar.“

„Í þessu máli varð trúnaðarbrestur milli mín og Ingu. Þess vegna sagði ég mig úr stjórn flokksins. Ég hef hins vegar ekki sagt mig úr flokknum því ég áskil mér rétt til að sitja landsfund hans. Ætla ég að hvetja til þess að landsfundi verði flýtt og þar tel ég að gefist tækifæri til að ræða þessa uppákomu og breyta þessari ákvörðun stjórnarinnar.“

Þeirra sök að sitja undir illu tali annarra

„Þessir ágætu menn sitja undir ýmsum umsögnum og framkomu sem þeir eiga engan hlut að. Þeirra sök er sögð að sitja undir tali, fyrst um óskir að koma í Miðflokkinn, sem þeir tóku ekki undir – ekki er það saknæmt; síðan tal sumra, sem voru við skál, sem þeir áttu að standa fyrr upp frá. Á því hafa þeir beðist afsökunar. Þetta hvort tveggja getur ekki verið brottrekstrarsök úr stjórnmálaflokki, sem vill stuðla að lýðræði og réttum stjórnháttum, “ segir Halldór, afar ósáttur við þessa ákvörðun og stefnir að því að fá henni hnekkt á landsfundi flokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Í gær

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar