fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Vigdís segist ekki geta sagt fólki fyrir verkum – „Ég hef á tilfinningunni að þessu máli sé ekki lokið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 2. desember 2018 15:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég get ekki farið fram á slíkt. Fólk verður bara að finna þetta hjá sjálfu sér,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík, um hvort þingmenn Miðflokksins sem voru í hinu alþekkta samsæti á Klaustursbarnum eigi að segja af sér. Hún segist fylgja yfirlýsingu bæjarfulltrúa Miðflokksins í Suðurkjördæmi um málið. Yfirlýsingin, sem birt var fyrir tveimur dögum, er svohljóðandi:

„Bæjarfulltrúar Miðflokksins í Suðurkjördæmi harma þau niðrandi ummæli sem þingmenn Miðflokksins létu falla um samborgara sína og samstarfsfólk þann 20. nóvember síðastliðinn á Klaustur Bar í Reykjavík og náðust á hljóðupptöku.

Við vonum að þingflokkur Miðflokksins komist að ásættanlegri niðurstöðu á fundi sínum í dag fyrir almenning varðandi áframhaldandi þingmennsku þeirra þingmanna sem þarna áttu hlut að máli. Að öðrum kosti óskum við eftir flokkráðsfundi þar sem félagar Miðflokksins taka ákvörðun um framhaldið.

Bæjarfulltrúar Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir – Grindavík
Margrét Þórarinsdóttir – Reykjanesbæ
Tómas Ellert Tómasson – Svf. Árborg“

Vigdís deildi þessari yfirlýsingu á tveimur Facebook-síðum sínum og lét fylgja með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Ég er sammála þessari yfirlýsingu bæjarfulltrúa Miðflokksins í Suðurkjördæmi og hef við þetta að bæta að þetta er óverjandi orðræða á köflum sem ég gagnrýni harðlega. 
Þingmenn og þingflokkur verða að bregðast við – en ég ætla ekki að segja þeim fyrir verkum – frekar en að þeir geti sagt mér fyrir verkum.“

Taka sameiginlegar ákvarðanir um framhaldið

Þeir tveir þingmenn flokksins sem viðhöfðu eldfimustu og grófustu ummælin á upptökunni, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, eru farnir í launalaust leyfi frá þingmennsku en hafa ekki sagt af sér. Staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sem einnig voru í þessum hópi, er óbreytt. Þó hefur Anna Kolbrún sagst hugleiða hvort hún eigi að segja af sér. Anna Kolbrún er í velferðarnefnd Alþingis sem hefur með málefni fatlaðra að gera, en á upptökunum heyrist ósmekklegt grín í garð fatlaðra sem Anna tók að einhverju leyti þátt í, þó ekki með eins grófum hætti og sumir aðrir. Aðspurð hvort eðlilegt væri, í ljósi þessa, að Anna Kolbrún sæti áfram, sagði Vigdís ekki vilja úttala sig um það:

„Ég ítreka bara að ég fylgi þessari yfirlýsingu bæjarfulltrúanna. Við tökum svo bara sameiginlegar ákvarðanir varðandi framhaldið. Kjörnir fulltrúar hafa sérstaka stöðu að því leyti að þeir sækja umboð sitt til kjósenda. Um eiginlegt ráðningarsamband er ekki að ræða. Þetta á við um þingmenn, okkur sveitarstjórnarmenn og forseta Íslands. Ég get ekki farið fram á það að fólk segi af sér, það er ekki mitt að gera það.“

Er blaðamaður gekk á Vigdísi og innti eftir hennar persónulegu skoðun á því hvort nóg hafi verið að gert með afsökunarbeiðni allra þingmannanna fjögurra og launalausu leyfi tveggja þeirra, þá sagði Vigdís:

„Ég held að ég sé búin að segja það um þetta mál sem ég vil segja að sinni. En þú mátt hafa eftir mér að ég hef á tilfinningunni að þessu máli sé ekki lokið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu