fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Svandís: „Kannski hefði verið betra ef maðurinn minn hefði verið drepinn“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 9. nóvember 2018 08:15

Piet og Svandís. Mynd:Úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég skrifaði þetta í örvæntingu minni. Mér fannst ég vera alein og vissi ekki hvað ég ætti að gera.“ Þetta segir Svandís Funder Svendsen um hjálparákallið sem hún skrifaði og birti á Facebook á laugardaginn. Eins og DV skýrði frá fyrr í vikunni þá fékk maður hennar, Piet Funder Svendsen, geðrofskast þar sem þau voru stödd á hóteli í Kaupmannahöfn og þurfti að kalla til lögreglu. Skrif Svandísar vöktu mikla athygli og tugir þúsunda líkuðu við skrif hennar á Facebook og nokkrir af stærstu fjölmiðlum Danmerkur fjölluðu um málið. Í skrifum sínum fjallaði Svandís opinskátt um veikindi Piet og baráttu hennar, sem oft er einmanaleg, við að láta hverdaginn ganga upp.

Allt frá því að Piet var sendur til Afganistan með danska hernum 2008 hefur hann þjáðst af áfallastreituröskun og geðrofsköst og angistarköst hafa verið hluti af lífi þeirra eftir það. Sjúkdómurinn hefur haft þau áhrif að Piet er ekki lengur sá glaði og mannblendi maður sem hann var áður, nú er hann innhverfur og hefur tilhneigingu til að einangra sig frá umheiminum, þar með talið frá Svandísi og börnum þeirra þremur. Veikindin gera það að verkum að hann á erfitt með margt sem öðrum finnst lítið mál að gera, einfalda hversdagshluti á borð við að versla inn og setja í uppþvottavélina.

Sjúkdómurinn hefur gjörbreytt lífi þeirra og Svandís verður ein  að standa undir því að láta hversdagslíf fjölskyldunnar ganga upp en um leið upplifir hún í miklu návígi martraðir Piet um þann hrylling sem hann upplifði í Afganistan.

Í samtali við DV sagði Svandís að sársaukinn, sem Piet, gengur í gegnum af völdum áfallastreituröskunarinnar sé mikill.

„Það er svo hræðilegt að sjá hvernig sá, sem maður elskar af öllu hjarta, þjáist svona mikið. Það er ótrúlega grimmdarlegt að segja það en stundum læðist sú hugsun að mér að það hefði kannski verið betra fyrir Piet ef hann hefði verið drepinn í Afganistan. Þá hefði hann sloppið við allar þessar miklu þjáningar.“

Hún segir að auðvitað sé erfitt að stíga fram og deila þessari sögu með alþjóð en hún hafi gert það til að vekja athygli á þeirri erfiðu stöðu sem margir uppgjafahermenn og ástvinir þeirra eru í. Fólk berjist vonlausri baráttu við að láta lífið ganga upp og komast í gegnum hverdaginn. Einangrun þessa hóps sé mikil því hann hafi einfaldlega ekki krafta til að gera neitt annað en að berjast við að komast í gegnum einn dag í einu.

Finna fyrir fordómum

Aðspurð segir Svandís að þau finni fyrir fordómum og jafnvel ótta fólks við að Piet, hermaðurinn sem var sendur til Afganistan til að verja danska hagsmuni en kom heim með stór ör á sálinni, kunni að taka upp á einhverju miður góðu. Hún segir að fordómarnir séu mismiklir, það sé ekki oft sem fólk segi eitthvað beint við þau en þau heyri sögur sem eru sagðar um þau. Þetta sé sérstaklega áberandi þar sem þau búa í litlum bæ á Jótlandi. Börn þeirra hafa ekki orðið fyrir aðkasti en þau og fjölskyldan öll eru mjög opin varðandi veikindi Piet.

Piet við skyldustörf. Mynd:Úr einkasafni

Svandís segist hafa verið tvístígandi um hvort hún ætti að segja sögu þeirra því ef hún gerði það væri hún jú að opinbera veikindi Piet fyrir alþjóð og þar með skýra frá veikasta bletti hans. á hinn bóginn hafi henni fundist hún tilneydd til að láta heyra í sér.

„Ég hef barist í 10 ár og er að þrotum komin.“

Er eiginlega einstæð móðir

Veikindin Piet eru svo alvarlega að hann var úrskurðaður öryrki 2015 og fær greiddar örorkubætur.

„Í raun er ég eins og einstæð móðir. Ég sé um allt á heimilinu, smyr nesti, kem börnunum af stað í skóla, sé um innkaup og matseld og kem börnunum í rúmið á kvöldin.“

Segir Svandís og bætir við:

„Ég er líka eins og stuðningsfulltrúi fyrir Piet. Ég þarf stöðugt að hafa þarfir hans í huga því á örskotsstundu geta aðstæðurnar orðið þannig að hann bregst illa við eða þá að þær draga allan mátt úr honum. Þetta getur verið eitthvað svo einfalt sem skyndilegt hljóð eða tilfinning um að einhver, sem hann sér ekki, sé fyrir aftan hann.“

Svandís. Mynd:Úr einkasafni

Hún segist vera orðin góð í að sjá þegar hann er við að fá angistarköst eða geðrofsköst.

„Það er eitthvað sem börnin eiga ekki að þurfa að sjá, svo ég verð að vernda þau fyrir því þegar hann fær slík köst.“

Vonast eftir meiri stuðningi

Svandís og Piet hittu Naser Khader, þingmann og formanni varnarmálanefndar danska þingsins í gær fimmtudag, vegna málsins en skrif Svandísar náðu augum Khader og setti hann sig í samband við hana fyrr í vikunni. Svandís segir að fundurinn hafi verið góður og þar hafi þau sagt Khader hvað þeim finnist skorta á í sambandi við málefni uppgjafarhermanna sem glíma við áfallastreituröskun. Þau vonist til að þau og aðrir í sömu stöðu fái meiri stuðning frá hinu opinbera.

Á undanförnum árum hefur orðið vakning í málefnum tengdum uppgjafarhermönnum og ýmis verkefni eru í gangi sem er ætlað að létta þeim lífið. Þar á meðal eru íþróttaverkefni en þau hafa að sögn Svandísar hjálpað Piet mikið.

Hvað varðar fjármálin segir Svandís að Piet fái örorkubætur en þær séu skertar vegna reglna um gagnkvæma framfærsluskyldu og því dragi tekjur hennar bæturnar niður. Þetta geri að verkum að fjárhagurinn sé erfiður en þau komist af og nái endum saman. Svandís er í námi og fær greiddan námsstyrk frá danska ríkinu en hann er ekki mjög hár.

Myndin sem kom öllu af stað. Mynd:Svandís Funder Svendsen

Svandís segist ekki kenna Piet um stöðu mála. Hann geri allt sem í hans valdi stendur en veikindi hans geri það að verkum að oft sé það bara ansi takmarkað sem hann getur gert. Hann vilji fjölskyldunni allt hið besta og hafi aldrei verið ógnandi í garð hennar eða barnanna.

„Ég hef næstum enga orku til að sinna náminu og alls engan tíma til að vera í hlutastarfi en aðeins meiri innkoma kæmi sér svo sannarlega vel. Frítíma hef ég ekki.“

Segir Svandís sem hefur sjálf glímt við þunglyndi vegna þessa mikla álags sem stöðugt hvílir á henni við halda fjölskyldunni og sjálfri sér á floti.

„Ég held að fólk skilji ekki hvernig líf með uppgjafarhermanni, sem er með áfallastreituröskun, er. Heitasta ósk mín er að við getum gert venjulega hluti saman, til dæmis farið saman að versla í matinn, heimsækja ættingja og vini, án þess að ég þurfi sífellt að vera á varðbergi og hafa í huga að þetta geti reynst of erfitt fyrir Piet.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri