fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Hafa ekki greitt í félagið í meira en 20 ár

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Föstudaginn 9. nóvember 2018 16:00

Sjómannafélag Íslands Trúnaðarmannaráðsmenn neituðu flestir að ræða brottvikningu Heiðveigar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið umstang hefur átt sér stað innan Sjómannafélags Íslands undanfarið eftir að Heiðveigu Maríu Einarsdóttur var vísað úr félaginu. Vísaði trúnaðarráð félagsins Heiðveigu Maríu úr félaginu með 18 atkvæðum gegn 4. Í trúnaðarráðinu eru 48 manns, allt karlmenn. DV hafði samband við stóran hluta þeirra manna sem sitja í ráðinu og spurði þá sem voru á fundinum hvaða afstöðu þeir tóku vegna brottvikningar Heiðveigar Maríu. Eingöngu einn af þeim fjölmörgu sem DV ræddi við vildi gefa upp afstöðu sína. Sá einstaklingur kaus um að vísa Heiðveigu úr félaginu. Blaðamaður ræddi einnig við meðstjórnanda í félaginu, en öll stjórnin situr í trúnaðarráðinu.

„Ég hef ekkert að segja um þetta mál, Jónas talar fyrir okkar hönd,“ sagði hann. Þegar blaðamaður spurði hvort hann sem meðstjórnandi væri ekki með sjálfstæða skoðun á málinu þar sem hann tók afstöðu, svaraði hann með því að skella á.

 

„Heiðursfélagar“ með kosningarétt hafa ekki borgað í félagið í yfir 20 ár

Stjórn Sjómannafélagsins ákvað að vísa Heiðveigu Maríu úr félaginu vegna meintra niðrandi ummæla hennar um félagið. Hafa fjórir meðlimir í félaginu gefið út yfirlýsingu þar sem þeir lýsa á mjög furðulegan hátt hvernig Gunnar Smári Egilsson væri að reyna taka yfir félagið með baktjaldamakki. Byrjaði sú vegferð Gunnars þegar hann átti víst að hafa hringt inn á á skrifstofu félagsins til að spyrjast fyrir um hvenær kosningar yrðu í Sjómannafélaginu. Í yfirlýsingunni vitna þeir einnig í blaðagreinar og Facebook-ummæli máli sínu til stuðnings. Niðurstaðan í þessari tilkynningu er sú að Heiðveig María sé að vinna fyrir Sósíalistaflokkinn og Gunnar Smára og er markmið hennar að taka yfir félagið með baktjaldamakki og áhlaupi utanaðkomandi fólks.

Eins og kemur fram hér að framan ræddi DV við allmarga einstaklinga innan félagsins og kom þá í ljós að margir þeirra hafa ekki greitt í félagið í mörg ár. Í einu tilfelli meira en 20 ár. Sitja þeir samt sem áður í trúnaðarráði félagsins ásamt því að mæta á aðalfundi og hafa þar atkvæðisrétt. DV ræddi við einn meðlim trúnaðarráðs og spurði hann hversu langt væri síðan hann hafi verið starfandi: „Það eru að fara verða 10 til 12 á … Ég þarf ekkert að segja þér hvenær ég hætti að vinna, vertu blessaður.“

 

Jónas Garðarsson
DV hefur ítrekað reynt að ná tali af formanninum.

„Þú hefur ekkert að gera með þá“

DV hefur undanfarna fjóra daga reynt ítrekað að ná tali af Jónasi Garðarssyni, formanni Sjómannafélags Íslands. Hefur blaðamaður ítrekað hringt í farsímann hans, skilið eftir skilaboð á skrifstofu félagsins ásamt því að fara niður á skrifstofuna sjálfa. Blaðamaður beið í rúman klukkutíma á skrifstofu Sjómannafélags Íslands þar sem honum var tjáð að Jónas hefði skroppið frá til að grípa sér eitthvað að borða. Eftir um klukkutíma bið var honum tjáð að hann hlyti nú að hafa skroppið í eftirlitsferð. Á meðan heimsókn blaðamanns stóð náði hann tali af Bergi Þorkelssyni, gjaldkera félagsins og stjórnarmeðlimi sambandsins, sem einnig situr í trúnaðarmannaráði.

Heiðveig María hafði kallað eftir ársreikningum félagsins hjá Bergi til að geta kynnt sér fjárhag félagsins og svaraði Bergur henni þá: „Þú hefur ekkert að gera með þá.“ Spurði blaðamaður hann út í þessi orð hans og staðfesti hann að hafa látið þessi orð falla. Segir Bergur að honum sé ekki heimilt að veita henni ársreikninga félagsins frá þessum árum þar sem hún hafi ekki verið meðlimur í félaginu þegar ársreikningarnir voru gefnir út. Blaðamaður spurði þá hvort hann mætti fá afrit af þessum ársreikningum. „Ég hef bara enga heimild til að afhenda þér þá.“

Er eitthvað í lögum félagsins sem bannar þér að afhenda mér þá?

„Já, þeir eru aðeins afhentir félagsmönnum og liggja fyrir á aðalfundi. Ég þarf að fá leyfi stjórnarinnar til að afhenda þér þá.“

Ekkert kemur fram í lögum Sjómannafélagsins um að ekki megi afhenda ársreikninga. Hvað þá að eingöngu megi afhenda félögum þá.

Spurður út í svokallaða heiðursfélaga sagði Bergi ekkert athugavert við það að menn sitji í trúnaðarráði og kjósi á aðalfundi félagsins þrátt fyrir að hafa ekki greitt í félagið árum saman. Samkvæmt yfirlýsingu frá félaginu segja þeir að samkvæmt lögum félagsins þurfi einstaklingur að vera búinn að vera í félaginu í þrjú ár en samkvæmt lögum félagsins er talað um að hafa greitt í félagið síðastliðin þrjú ár.

Drífa Snædal, nýkjörinn forseti Alþýðusambands Íslands, hefur opinberlega gagnrýnt brottreksturinn harðlega. Þá hafa mörg önnur verkalýðsfélög gagnrýnt þessa ákvörðun Sjómannafélags Íslands. Segir lögfræðingur Heiðveigar Maríu að brottreksturinn sé kolólöglegur og að málið fari fyrir Félagsdóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri