Brynjar Gunnarsson þjálfar afreksfólk í frjálsum íþróttum á sama tíma og hann berst við sjaldgæft krabbamein. Brynjar greindist með tíu æxli í kviðarholinu í nóvember 2014, um er að ræða krabbamein sem leggst yfirleitt á börn í Asíu, er hann sá eini hér á landi með þessa tegund krabbameins. Hann lýsir greiningunni í viðtali við RÚV:
„Ég var bara í mastersnámi í íþróttavísindum í HR, var að þjálfa frjálsar, nýbúinn að eignast lítinn strák, nýbúinn að kaupa mér íbúð og er í smá svona átaki og er að léttast frekar mikið. Svo hélt ég bara áfram að léttast eftir að ég nennti ekki að vera í átaki lengur,“ segir Brynjar. Það tók töluverðan tíma að komast að því hvernig krabbamein hann er með. Hann hefur nú farið í fimm meðferðir, þar af hafa tvær þeirra virkað.
Allan þennan tíma hefur hann haldið áfram að þjálfa frjálsar íþróttir og það með glæsilegum árangri. Hann þjálfar meðal annars hlaupakonuna Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur sem varð Evrópumeistari og Ólympíumeistari ungmenna á árinu og Íslandsmeistarann Tiönu Ósk Whitworth. Brynjar segir það muna miklu að halda áfram að þjálfa:
„Það hjálpar ótrúlega mikið. Svona á þeim tímum þegar maður er að hugsa mikið um þetta allt þá gleymir maður þessu samt þegar maður kemur hingað og ég held að það sé rosalega mikilvægt.“