Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafi hringt í hann eftir kosningarnar haustið 2017 með það fyrir augum að flokkarnir mynduðu bandalag. Þetta má heyra á leyniupptökunum sem DV hefur undir höndum og fjallað um.
Eins og margir muna mættu Sigmundur Davíð og Inga saman til Bessastaða til að funda Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þann 30. október í fyrra. Inga sat í aftursætinu á bíl Sigmundar en þennan dag ræddu formenn allra flokka á þingi við forseta um stjórnarmyndun. Áður hafði Sigmundur lýst því yfir að hann vildi fá umboð til stjórnarmyndunar og sagði síðan að hann hefði rætt við Ingu, þó þau hefðu „ekki beint“ myndað formlegt bandalag eins og RÚV hafði eftir honum.
Í samtölum við fjölmiðla eftir fund sinn við forseta var Inga spurð út þetta meinta bandalag. „Ég hef nú ekki heyrt um neitt bandalag,“ sagði hún og bætti við að hún hefði spjallað við Sigmund á óformlegum nótum. Inga Sæland sagði á þessum tíma:
„Við erum náttúrulega afskaplega lík um margt í okkar málefnastefnu þannig að eðli málsins samkvæmt tölum við saman, eins og margir aðrir,“ sagði hún og bætti við að „allt kæmi til greina“ varðandi samstarf við aðra flokka, Miðflokkinn þar á meðal.
Á upptökunum sem DV hefur undir höndum heyrist þegar þingmennirnir ræða um Ingu Sæland og virðist Sigmundur varpa ákveðnu ljósi á hvað gerðist í aðdraganda þess að þau mættu saman til fundar á Bessastöðum.
Sigmundur Davíð: „Allt of lengi var ég auðvitað meðvirkur með henni. Hún mætti stundum á fundi Framfarafélagsins og þetta var svona kona sem að „ég er bara að berjast fyrir […] Fínt að hafa svona konu með. Svo var hringt heima hjá mér og það var bara „núna leggjum við á ráðin, þessir tveir flokkar mynda bandalag.“
Óþekktur aðili: „Hún er algjörlega óstjórntæk“
Sigmundur Davíð: „Ég var ekki búinn að átta mig á því á þeim tíma. Það ber bara vott um skort minn á að vera mannþekkjari.“
Anna Kolbrún: „Þú ert svo góður maður Sigmundur.“
Gunnar Bragi: „Það er þinn versti löstur hvað þú ert allt of góður maður.“
Anna Kolbrún: „Það er alveg rétt.“
Ólafur: „Af vinunum skulum við þekkja þá.“
Sigmundur Davíð: „Ég hugsaði, hér er komin alþýðukona með trausta menn með sér (á við Ólaf og Karl) og nú gerum við bandalag. Ég hugsaði, látum þá sjá þetta, að við séum komin í bandalag. Ég keyri á Bessastaði, svo sé ég hana í sjónvarpinu sama dag og það var ekki neitt á hana að treysta.“
Einn heimildarmanna DV sem þekkir vel til fullyrðir að Inga Sæland hafi dregið í land eftir að hafa orðið var við óánægjuraddir við fyrirhugað samstarf. Samstarfið hafi hins vegar verið frágengið en Inga gugnað þegar á hólminn var komið.