Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram til þessa hafa vísindamenn aðallega beint sjónum sínum að hækkandi sjávarhita en gefið súrnun hans minni gaum og ekki talið hana hafa mikil áhrif á fiska. Fréttablaðið hefur eftir Hreiðari Þór Valtýssyni, lektor í sjávarlíffræði við Háskólann á Akureyri, að súrnunin hafi neikvæð áhrif á þorskinn, það sem menn hafi áður talið öruggt og allt í lagi sé það ekki.
Rannsóknin sýnir að hrygningarsvæði þorsksins fari minnkandi og færist sífellt norður á bóginn. Súrnunin veldur því að færri seiði ná að þroskast og það hefur í för með sér fækkun í stofninum. Haft er eftir Hreiðari að þetta þurfi þó ekki að eiga við Ísland.
„Þetta er svolítið flókið samband, það sem við myndum sjá fyrst í þessu er að þorskurinn myndi hrygna mun meira norðan við Ísland í kaldari sjó. Það væri fyrsta stigið, og að minnka hrygningu fyrir sunnan land. Sjórinn fyrir sunnan myndi þá vera að nálgast þetta krítíska hitastig fyrir hrygningu.“