„Spáð er norðaustanhvassviðri eða -stormi með snjókomu eða hríðarveðri norðan- og austanlands frá því síðdegis til föstudags og því eru ferðamenn hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og -viðvörunum.“
Segir á heimasíðu Veðurstofunnar. Hér fyrir neðan er síðan veðurspáin fyrir landshlutana.
Á Suðurlandi verða norðan 18-23 m/ undir Eyjafjöllum austur í Mýrdal með vindhviðum allt að 45 m/s. Varasamt ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Við Faxaflóa gengur í norðaustan 15-23 m/s, hvassast á Snæfellsnesi og við Hafnarfjall þar sem vindhviður geta náð 45 m/s. Varasamt ökutækjum, sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Við Breiðafjörð er spáð norðaustan 15-23 m/s með vindhviðum að 35 m/s norðan til. Varasamt ferðaveður.
Á Vestfjörðum gengur í norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Færð mun spillast smám saman og skyggni fer minnkandi þegar líður á daginn. Líkur á samgöngutruflunum.
Á Ströndum og Norðurlandi-Vestra gengur í norðaustan 13-23 m/s með snjókomu og skafrenningi, hvassast og úrkomumest á Ströndum. Færð mun spillast smám saman og skyggni fer minnkandi þegar líður á daginn. Líkur á samgöngutruflunum.
Á Norðurlandi-Eystra er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir líklegar.
Á Austurlandi að Glettingi er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir líklegar.
Á Austfjörðum er spáð norðaustan 13-18 m/s og talsverð snjókoma til fjalla. Samgöngutruflanir líklegar.
Á Suðausturlandi gengur í norðaustan 15-20 m/s, en 18-25 m/s um kvöldið með vindhviðum að 40-50 m/s í Öræfum. Einnig mjög hviðótt í Mýrdal. Vegfarendur fari varlega, einkum ef ökutæki eru viðkvæm fyrir vindum.
Á Miðhálendinu er spáð norðan 23-28 m/s og blindhríð, einkum sunnan jökla. Vinhviður geta staðbundið farið í 50 til 60 m/s.