fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Mikill áhugi Kínverja á Papúa Nýju-Gíneu

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 25. nóvember 2018 15:00

Xi Jinping Ráðstefna í Papúa Nýju Gíneu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu fór nýlega í heimsókn til Peking ræddi hann við kínverskan starfsbróður sinn og sagði honum meðal annars að hann vildi gjarnan leggja stóran og breiðan veg þvert í gegnum Port Moresby, sem er höfuðborg Papúa Nýju-Gíneu. Það er ekkert vandamál svaraði kínverski forsætisráðherrann. „Segðu mér eitt, á hann að vera nægilega breiður til að skriðdrekar komist eftir honum?“

 

Miklir peningar

Það eru margar gamansögur eins og þessar sem sagðar eru í Port Moresby þessa dagana en á bak við þær er hins ákveðin alvara og sannleikur því áhrif Kínverja fara sívaxandi í landinu. Kínverjar hafa lagt til fjármagn við fjölda framkvæmda í höfuðborginni, vegir, leikvangar og jafnvel strætisvagnabiðstöðvar hafa verið byggðar fyrir kínverska peninga. Þessi fátæka þjóð hefur tekið þessu fjármagni fagnandi. En áhugi Kínverja á Papúa Nýju-Gíneu er ekki nýr af nálinni og það er áhugi þeirra á Kyrrahafi og ríkjunum þar ekki heldur.

Árið 2016 námu fjárfestingar Kínverja á Papúa Nýju-Gíneu um 21 milljón dollara. Á síðasta ári var upphæðin komin yfir 60 milljónir dollara. Þetta eru auðvitað miklir peningar en ef fjárfestingar og eyðsla Ástrala í landinu er skoðuð sést að hún er mun meiri, en Ástralir standa undir 70% af þeirri fjárhagsaðstoð sem landið fær enda var Papúa Nýja-Gínea áður nýlenda Ástrala. Fátækt er mikil í landinu og um 40% þjóðarinnar hafa minna en einn Bandaríkjadal til framfærslu á dag samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum. Í gegnum tíðina hafa Ástralir sett fjármagn í menntakerfið og þjálfun opinberra starfsmanna til að bæta stjórnsýsluna í landinu. Kínverjar setja á hinn bóginn peninga í það sem íbúar landsins segjast hafa mesta þörf yfir, innviði.

Papúa Nýja-Gínea
Mikil fátækt og spilling.

Herstöð á næstu áratugum

Allt er þetta hluti af áætlun Kínverja um að tengja Kína við önnur ríki heimsins með fjárfestingum og viðskiptum. Þessi áætlun er hugarfóstur Xi Jinping forseta sem hefur ekki farið leynt með þennan áhuga sinn. Í síðustu viku tilkynntu áströlsk stjórnvöld að þau ætli að fjárfesta fyrir einn milljarð dala á Kyrrahafssvæðinu og verður fjárfestingunum beint að innviðum. Þetta er gert til að mæta vaxandi áhrifum Kínverja á svæðinu.

Á Papúa Nýju-Gíneu hefur verið gagnrýnt að það sé oft vandi við kínversku peningana að ekkert gagnsæi sé um hvernig þeir eru notaðir eða hverjir fá þá. Hluti af þessu vandamáli er léleg stjórnsýsla á Papúa Nýju-Gíneu og mikil spilling. Annar hluti þess er að Kínverjar láta oft fé af hendi og spyrja síðan hvað var gert við það. Þetta veldur því að oft er ráðist í óþörf verkefni sem mikið fé fer í á meðan þarfari verkefni sitja á hakanum, má þar nefna heilbrigðismál.

Það sem dregur Kínverja meðal annars að Papúa Nýju-Gíneu er að þar eru miklar náttúruauðlindir á borð við sjaldgæfar steintegundir. Ekki má heldur gleyma að þar býr þriðjungur allra stuðningsmanna Taívan í heiminum en það er eitthvað sem Kínverjar vilja gjarnan breyta enda er Taívan þeim þyrnir í augum.

En ekki er ósennilegt að Kínverjar séu að horfa langt fram í tímann með þessum fjárfestingum sínum. Ástralir og Bandaríkjamenn óttast að lokatakmark Kínverja sé að koma sér upp herstöð einhvers staðar í Kyrrahafi á næstu tuttugu til þrjátíu árum. Af þessum sökum hafa bæði Ástralir og Bandaríkjamenn undanfarið brugðist við auknum áhrifum Kínverja á svæðinu.

Papúa Nýja-Gínea er í nokkurra þúsunda kílómetra fjarlægð frá Guam sem er bandarískt yfirráðasvæði með stórri herstöð. Í nýrri skýrslu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu kemur fram að líklegt megi teljast að kínverski herinn hafi hug á að stækka aðgerða- og áhrifasvæði sitt lengra út frá Kína til að sýna fram á getu sína til að ráðast á heri Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á vesturhluta Kyrrahafssvæðisins, þar á meðal Guam.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Í gær

Banaslys er maður féll í Tungufljót

Banaslys er maður féll í Tungufljót