fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fréttir

Munu írsku landamærin sprengja Brexit?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 18. nóvember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brexit-viðræður bresku ríkisstjórnarinnar og ESB eru nú á mjög viðkvæmu stigi en skammur tími er til stefnu til að ná samkomulagi áður en úrsögn Breta úr ESB tekur gildi í lok mars á næsta ári. Samkvæmt fréttum getur brugðið til beggja vona og samningar náðst eða ekki. Ekki bætir úr skák að mikil óeining er innan bresku ríkisstjórnarinnar um samninginn og margar andstæðar skoðanir á lofti.

Það skiptir ekki litlu máli í samningi um Brexit, ef hann næst, hvernig verður tekið á málefnum Norður-Írlands sem er hluti af Stóra-Bretlandi. Margir óttast að ef ekki tekst að ná samningi eða ef það sem varðar Norður-Írland verður ekki nógu gott muni óöld og borgarastyrjöld hefjast á nýjan leik í þessari púðurtunnu Stóra-Bretlands. Bresk stjórnmál snúast að miklu leyti um Norður-Írland þessa dagana enda er mikið í húfi hvernig sem á það er litið.

Allt á þetta rætur að rekja nokkur hundruð ár aftur í tímann þegar Englendingar byrjuðu að hreiðra um sig á Írlandi sem var síðar innlimað í Stóra-Bretland. Bretarnir, sem voru mótmælendur, settust aðallega að á norðurhluta eyjarinnar. Þegar Írland fékk sjálfstæði 1920 héldu Bretar Norður-Írlandi eftir og var meirihluti íbúanna mótmælendatrúar. Íbúar hins sjálfstæða írska lýðveldis, Írlands, voru hins vegar að mestu kaþólikkar. Það var nánast hægt að setja samansemmerki á milli „írskur“ og „kaþólskur“ og það þarf því ekki að koma á óvart að áhrif og ítök kaþólsku kirkjunnar voru gríðarlega mikil.

 

Mikil spenna

Á Norður-Írlandi kom upp mikil spenna á milli mótmælenda og kaþólska minnihlutans. Kaþólikkarnir vildu ekki tilheyra Stóra-Bretlandi heldur Írlandi. Í lok sjöunda áratugarins hófst síðan borgarastyrjöld sem hafði miklar hörmungar og hrylling í för með sér. Um 3.500 manns létu lífið í átökunum sem lauk ekki fyrr en með samningi, sem er kenndur við föstudaginn langa, en hann var gerður 1998. En þrátt fyrir að 20 ár séu síðan samningar tókust er spennan enn mikil á milli trúarhópanna en þó minni en áður. Einstaklingar úr röðum beggja eru sammála um að það muni taka margar kynslóðir að koma ástandinu í eðlilegt horf en vonast til að það takist að lokum. Samkvæmt samningnum sættu kaþólikkar sig við að Norður-Írland væri breskt yfirráðasvæði en einnig kvað hann á um bætt samskipti Norður-Írlands og Írlands.

Landamæri ríkjanna eru 499 kílómetra löng. Á meðan borgarastyrjöldin stóð yfir var mikið eftirlit á þeim öllum. Varðturnar voru víða og fólk þurfti oft að sæta skoðun á skjölum og farmi þegar það fór yfir þau. Bretar gerðu þetta til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn úr Írska lýðveldishernum, IRA, gætu laumast úr „skjóli“ sínu á Írlandi yfir landamærin til að fremja hryðjuverk. Í kjölfar friðarsamningsins voru landamærin opnuð og eftirliti hætt. Nú eru ekki einu sinni skilti sem gefa til kynna hvort verið sé að koma inn í annað land. Besta ráðið til að átta sig á því er að taka eftir hvort umferðarmerkin, sem sýna leyfðan hámarkshraða, tiltaka hann í mílum eða klukkustundum. Bæði Bretar og Írar vilja halda landamærunum opnum eftir Brexit og ekki taka upp sérstakt eftirlit á þeim þar sem það gæti minnt fólk á tíma átaka og ofbeldis.

En þessi 499 kílómetra landamæri verða ytri landamæri ESB um leið og Brexit tekur gildi. Um það snýst mesti vandinn í dag. Vandinn er ekki svo mikill fyrir fólk því bæði Írland og Stóra-Bretland standa utan Schengen-samkomulagsins. En þegar Brexit verður að veruleika geta Bretar tekið upp aðra tolla og aðra löggjöf um vörur en ESB gerir. Ef ekkert eftirlit verður á landamærunum geta þau orðið góð leið til að flytja vörur til ESB frá Bretlandi, vörur sem tollur hefur ekki verið greiddur af eða þá að þær uppfylli ekki þær kröfur sem ESB gerir. Þessar vörur gætu síðan verið fluttar áfram frá Írlandi til annarra aðildarríkja ESB. Ef Bretar vilja nota Brexit til að öðlast fullt frelsi frá ESB er erfitt að halda landamærunum galopnum eins og þau eru í dag.

 

Theresa May Hefur átt í erfiðleikum með Brexit.

Varnagli

Af þessum sökum fékk ESB Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til að fallast á ákveðinn varnagla í desember á síðasta ári varðandi landamæri Norður-Írlands og Írlands. Í honum felst að Norður-Írland verði áfram í tollabandalagi við ESB, nema önnur lausn finnist, á meðan viðræðum verður haldið áfram frá 2019 til 2020 um fyrirkomulag framtíðarviðskiptasambands ESB og Stóra-Bretlands.

Þessi varnagli er að mati stærsta flokks mótmælenda, DUP, algjörlega óásættanlegur því samkvæmt honum verða til tollalandamæri í Írlandshafi sem skilur Írland og Stóra-Bretland að. Þannig flýtur Norður-Írland lengra frá Írlandi þar sem það verður enn tengt ESB sem verður með aðra löggjöf og tollareglur en Stóra-Bretland.

Það mikilvægasta að mati DUP er að Norður-Írland og Stóra-Bretland séu eitt í einu og öllu. Theresa May hefur ekki mikla möguleika til að fara gegn vilja DUP því flokkurinn er með 10 þingmenn í neðri deild breska þingsins og það eru einmitt þessir 10 þingmenn sem tryggja May meirihluta á þinginu og þar með völd. Ekki bætir úr skák að DUP er mjög staðfastur flokkur sem víkur ekki frá stefnu sinni. Hann var eini stóri flokkurinn sem var á móti friðarsamningnum 1998.

Ef ESB, DUP og íhaldsflokkur Theresu May halda fast við sinn keip þá getur, ef allt fer á versta veg, Brexit sprungið í loft upp og orðið án þess að samningur náist. Þá yfirgefa Bretar ESB án samnings, svokölluð „no dea“l útganga, sem mun hafa í för með sér að írsku landamærin lokast og Bretar munu væntanlega taka upp gæslu á þeim á nýjan leik. Það getur síðan haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir friðinn á Norður-Írlandi þar sem spennan er mikil og lítið þarf til að tendra stórt bál.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“