Óprúttnir einstaklingar stálu beiðnabók frá Reykjavíkurborg og tóku út vörur fyrir rúmar fjórar milljónir í reikning. Svo virðist sem um sé að ræða þaulskipulagðan þjófnað þar sem þjófarnir, tvær konur og tveir karlmenn vissu augljóslega hvernig beiðnakerfi borgarinnar virkar.
Farið var tvisvar í verslun Nova og keyptir farsímar fyrir um eina milljón króna, raftæki fyrir um hálfa milljón króna í verslun Elko og svo loks var keyptur glænýr plastbátur og kerra með fyrir um 2,2 milljónir króna. Átti fyrsta atvikið sér stað þann 27. júlí og það síðasta 12. október síðastliðinn.
Þegar plastbáturinn var keyptur var allt fagmannlega gert af þjófunum og grunaði starfsfólk fyrirtækisins ekki neitt um að hér væri ekki starfsmaður Reykjavíkurborgar á ferð. Beðið var um tilboð ásamt því að þess var óskað að gerðar yrðu sérstakar breytingar á bátnum, meðal annars að setja stærri eldsneytistank í hann.
Í samtali við DV sagði Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, að málið væri komið inn á borð hjá lögreglunni og væri þar í rannsókn. Aðspurður af hverju borgin hefði ekki sent frá sér yfirlýsingu um leið og tilkynnt var um málið til lögreglu, svo birgjar gætu vitað af mögulegu svindli sem væri í gangi með beiðnir frá Reykjavíkurborg svaraði hann: „Það er góð spurning, það er flott að geta verið gáfaður eftir á.“