

Það fylgir hrekkjavökunni að börn betli nammi með orðunum „grikk eða gott“. Svo virðist sem ungmenni í Garðabæ hafi valið fyrrnefnda kostinn í gær því Fríða nokkur segir í Facebook-hóp Garðbæinga að hús hennar hafi verið grýtt eggjum.

„Er þetta hluti af hrekkjarvökunni? Krakkar sem áttu leið eftir göngustígnum milli Löngumýrar og Krókamýrar kl 21:15 í kvöld þurftu að vekja á sér athygli með því að grýta eggjum. Varla nokkur stoltur yfir þessu framferði?,“ spyr Fríða.
Allir sem tjá sig í athugasemdum við færsluna er á því máli að svona hegðun gangi ekki. „Ömurleg hegðun!,“ segir Gíslunn meðan Rebekka segir: „En leiðinlegt að heyra! Allir prúðir og kurteisir sem komu hingað.“
Arnþór tekur í sama streng og segir: „Þetta er náttúrulega fyrir neðan allar hellur, ertu viss um að þetta hafi verið krakkar ekki einhverjir eldri? Þetta er fáránlegt!“ Særún nokkur segist hafa spurt börn um hvaða grikk þau hefðu í huga. „Ég spurði einn hóp hvað gerið þið ef ég bið um grikk. Þau svöruðu: köstum eggi í húsið þitt.“